sunnudagur, október 28, 2012

Nýreynsluþrenna

Karlinn búinn að vera nokkuð þéttsetinn síðustu rúmu vikuna og nýjar lífsreynslur að detta inn í bankann.

Skrapp í Bláa Lónið með nokkrum vinnufélögum undir lok þarsíðustu viku.  Í fyrsta sinn í Bláa Lónið.  Kom mér á óvart að það var allt stappað af útlendingum, um miðjan október.  Annars var ég nú ekkert frá mér numinn, missti mig ekkert í hvíta skítinn og get ekki sagt að ég hafi séð stórmun á húðinni á eftir.

Skrapp svo á sunnudaginn fyrir viku til Parísar í vinnuferð.  Í fyrsta sinn í París.  Frá túristasjónarhorninu var leiðinlegast að þetta voru 3 dagar inní einhverri sýningarhöll og því á ég enn eftir að bera Eiffelturninn og Sigurbogann augun.  Hótelið var reyndar nálægt Notra Dame kirkjunni þannig að það var hægt að horfa á þá byggingu en ekki náði ég að kíkja inn.  Maður verður bara að taka þetta síðar þegar betur liggur við.  Snéri heim á miðvikudagskvöldi, frekar lúinn.

Þurfti svo að taka að mér annað bílstjórahlutverkið fyrir körfuboltaliðið hjá Ísaki Mána og félögum í gær, til Hvammstanga.  Í fyrsta sinn á Hvammstanga.  Þeir unnu alla sína leiki, lítið annað um það að segja en held ég sé ekkert á leiðinni aftur á Hvammstanga á næstunni svona ef ég kemst hjá því.  Mikið var gott að komast heim í dag, tímanlega til að horfa á United vinna Chelsea en það verður að viðurkennast að ég var hálfdottandi fyrir framan kassann þrátt fyrir mikla dramantík.

Drengurinn að reyna að nota máttinn til að ná boltanum?

Engin ummæli: