mánudagur, september 30, 2013

Öðruvísi áður mér brá

Það verður bara að segjast.  Af því fótboltatengdi dóti sem ég hef verið að dunda mér við á sumrin var þetta sumar talsvert frábrugnara en síðustu ár.

Af Old boys Fylkir:  Ekki fékk ég símtalið þetta vorið með beiðni um að standa á milli stanganna hjá Fylki eins og ég hafði gert þrjú síðustu sumur.  Maður bjóst s.s. við því enda undirritaður ekki að kafna úr áhuga þarna undir lokin og ég held að það hafi nú alveg komið fram.  Ég er með smámóral yfir því hversu lítið (lesist: ekkert) ég sakna þess að vera sjálfur í tuðrusparkinu.  Maður hefur líklega alveg óverdósað með Vatnsberunum hérna um árið.  Þetta er bara orðið ágætt.

Af Pepsídeildinni:  KR-ingar voru að lyfta dollunni um síðustu helgi, alveg hreint frábært eða þannig.  Ég hef reynt að hafa það að reglu að taka einn leik á Hlíðarenda á sumri, eða a.m.k. einn leik með Val, svona for old times sake.  En það verður að segjast að það klikkaði algjörlega, ekki fór ég á svo mikið sem einn leik með Valsmönnum þetta sumarið.  Ég tók hinsvegar einn leik í Ólafsvík, þegar Víkingarnir tóku á móti Stjörnunni og gerðu 1:1 jafntefli.  Það var nú alveg must fyrst að Snæfellsnesið átti fulltrúa í efstu deild.  Verst að þeir fóru aftur niður en það var nú víst viðbúið.

Af ÍR:  2. deildin í fótbolta var að klárast fyrir einhverjum tveimur vikum en þangað féll ÍR síðasta haust.  Þeim gekk í sjálfu sér nokkuð vel í 2. deildinni, fóru inn í þetta með mikið breytt og mjög ungt lið og lentu í 4. sæti, tveimur stigum frá því að komast upp en einungis 2 stig skildu fyrsta sætið frá því fimmta.  Við Ísak Máni sáum einn hálfleik í sumar, síðari hálfleik á móti Gróttu út á Seltjarnarnesi en þá var það upptalið þannig að maður mætti ekki á svo mikið sem einn heimaleik.  Það hefur örugglega ekki gerst í 7-8 ár og verður að teljast skandall.  Ég ætlaði að taka síðasta leikinn en Stingermótið í Seljaskóla kom í veg fyrir það, kennir manni það að aldrei treysta á síðasta sjéns, í þessu sem öðru.

Af Grundarfirði:  Nýja 3ja deildin kláraðist um miðjan september með Grundarfjörð innanborðs.  Hérna verður að segjast að þetta var eini liðurinn sem flokkast innan míns áhugasviðs hvað tuðruspark varðar sem ég var að standa mig í sumar.  Maður fylgdist nokkuð vel með uppáhaldssveitaliðinu mínu, tók slatta af heimaleikjunum þeirra en þetta var óttarleg sveitadeild og því ekki mikið hægt að elta þá.  Tók nú samt leik með þeim í Hafnarfirði á móti ÍH og Augnablik í Kópavogi - þar sem n.b. ég var rukkaður um þúsundkall fyrir að fá að horfa á, sem mér fannst alveg magnað.  Tók svo eitt tvist þar sem sumir fjölskyldumeðlimir voru búnir að væla um að prufa sundlaugina á Hellu.  Hvað gera menn þá?  Jú, velja laugardaginn þegar Grundarfjörður átti að spila við KFR á Hvolsvelli og gera piknik ferð úr öllu saman. 

Ég ætla að gera betur næsta sumar...

1 ummæli:

Tommi sagði...

Ég reikna með að sjá þig á Egilsstöðum þegar við mætum Hetti næsta sumar.