mánudagur, ágúst 07, 2017

Manchester City - West Ham í Reykjavík

Í júníbyrjun var tilkynnt um að ensku liðin Manchester City og West Ham myndu mætast í æfingaleik á Laugardalsvelli í ágústbyrjun.  Það var eitthvað erlent fyrirtæki sem sá um að skipuleggja þennan viðburð og bar hann hið auðmjúka nafn:  Ofurleikurinn, eða Super Match.  Þetta yrði síðasti æfingaleikurinn sem þessi lið myndu spila fyrir fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.  Skipuleggjendur voru nokkuð borubrattir og voru klárir í að leigja stúkur fyrir aftan mörkin fyrir standandi áhorfendur og voru einhverjir draumar um að slá aðsóknarmetið á Laugardalsvellinum sem sett var á leik Ísland og Ítalíu 2004.  Þá mættu rétt rúmlega 20.000 manns, þar á meðal ég og Ísak Máni.  Mjög fljótlega kom í ljóst að það var a.m.k. tvennt sem þessir ágætu skipuleggjendur Ofurleiksins höfðu klikkað á.  Fyrst var sú staðreynd að leikurinn var settur á föstudeginum fyrir verslunarmannahelgina kl 14:00 og ljóst að ekki allir væru að fara fórna sínum plönum um þá helgi fyrir þennan leik.  Annað var að miðaverð var frekar hátt stillt.  Einhver 6.000 kall fyrir standandi pláss fyrir aftan mörkin en annars var sætið að kosta um 15-17.000 kr og engin barnaverð voru í boði.  Miðasalan fór því mjög svo rólega af stað, til að kveða ekki fastar að.  Þar sem planið okkar var að vera bara í bænum þessa helgi þá var ég alveg spenntur í að skoða að fara en verðið var ekki að gera neitt fyrir mig.  Ég ákvað því aðeins að bíða og sjá hvernig málin þróuðust með þetta.  Málið endaði svoleiðis að skipuleggjendurnir drulluðust til að henda á 50% afslátt fyrir börn og Ísak Máni var að vinna á kvöldvakt hjá Garra þessa vikuna þannig að ég splæsti í miða handa strákunum þremur en ákvað að mig langaði ekki alveg 17.000 kr í þetta.  Ég fór reyndar með Loga og Daða á opna æfingu hjá City deginum áður, maður þurfti miðann sinn í það en Ísak var að vinna þá.

Öruggur 3:0 sigur City þar sem Gabriel Jesus, Aguero og Sterling skoruðu mörkin og menn náðu með herkjum að kreista um 6.300 áhorfendur á völlinn.  Skipuleggjendurnir töluðu samt um að þeir séu að skoða málið fyrir næsta ár, með sambærilegan leik en þá reynslunni ríkari varðandi tímasetningar og miðaverð.  Það verður athyglisvert að sjá.
Leikmenn Man City sem spiluðu leikinn
Leikmenn West Ham sem spiluðu leikinn

Engin ummæli: