Ég heyrði af ungum knattspyrnumanni, ca 14 ára, sem spilar með yngri flokki hjá einum fótboltaklúbbi hér í bæ. Hann lenti í hræðilegu máli núna undir lok sumars með liðinu sínu. Hann þurfti að spila leik á malarvelli! Það var nokkuð sem hann hafði aldrei lent í á sínum ferli og af lýsingunum að dæma var þetta það versta sem hann hafði lent í. Datt í þokkabót og hruflaði á sér hnéð og fékk sand og smásteina í sárið, sem sagt hörmuleg lífsreynsla. Ég sé það líka núna þegar ég fylgist með Ísaki Máni og fótboltaferlinum hans þá eru þessir guttar hjá ÍR að æfa á flottu grasi og gervigrasi og spila svo mót í Reykjanes- eða Egilshöllinni. Sem er hið besta mál allt saman, flott að hægt sé að hafa toppaðstæður fyrir þessa krakka.
Ég tel mig ekki vera gamlan mann (Jóhanna systir myndi segja það vera misskilning) en maður æfði og spilaði stærstan hluta sinn yngri flokka feril á malarvöllum og kom svona nokkuð heill út úr því. Mér þótti sagan af unga, hruflaða knattspyrnumanninum krúttlega brosleg og jafnframt minnti mig á það hvað mikið hefur breyst á ekki lengri tíma.
• Ég man þegar það þótti eðlilegt að 10-11 ára guttar spiluðu í 11 manna liði á knattspyrnuvelli í fullri stærð. Á malarvelli að sjálfsögðu.
• Ég man þegar það var ekkert sjónvarp á fimmtudögum og allan júlí mánuð.
• Ég man þegar það voru engir gemsar til eða númerabirtar. Þú svaraðir bara í símann og hafðir ekki hugmynd um hver var hinumegin á línunni, spáið í því.
• Ég lærði mína lyklaborðakunnáttu á TA Gabriele 7007L. Nei það er ekki gömul tölva heldur ritvél, já ritvél.
• Ég man þegar það var algengt að í fjölskyldubílunum væru engin bílbelti í aftursætunum.
• Fyrsti bíllinn minn var með gömlu númeraplötunum.
• Ég man þegar geisladiskarnir komu á markaðinn.
• Ég man þegar engum datt í hug að í Tomma og Jenna væri undirkraumandi kattahatur. Málið var bara að kötturinn fékk oftast á baukinn og það var bara einfaldlega fyndið.
• Ég man þegar afgreiðslufólkið á kössunum í matvörubúðunum sló handvirkt inn öll verðin á vörunum sem ég var að kaupa.
• Ég man þegar Norræna húsið stóð eitt og sér nánast úti í sveit.
• Ég man þegar markmenn í fótbolta máttu taka við sendingu frá samherja með höndunum.
• Ég man þegar það var algengt að búðir væru lokaðar um helgar.
• Ég man þegar maður fékk handskrifuð bréf frá ættingjum í útlöndum og handskrifaði svarbréf til baka.
• Ég man þegar maður fór til útlanda þá labbaði maður út úr flugstöðinni, út á flugbrautarsvæðið og upp stiga upp í vélina.
• Ég man þegar allir voru með 8 stafa nafnnúmer.
• Ég man þegar enginn var hetró, metró eða bi.
Veit ekki hvort það sé hægt að segja að maður muni tímanna tvenna en það er svona eitt og annað sem hefur breytst síðan ég komst til vits og ára.
fimmtudagur, nóvember 10, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Kæri Davíð gamli maður.... Smá leiðrétting. 5 stafa símanúmer í gamla daga ekki 8 stafa
Sorry ég bulla bara. Mér fannst standa símanúmer ekki nafnnúmer.. EN hey bættu bara við þetta með símanúmerin
Jóhanna, hvað gerði ég án þín?
Skrifa ummæli