Inni í litlu, hlýju rými með daufri birtu var ég staddur ásamt tveimur stúlkum, önnur var ljóshærð en hin var dökkhærð. Þær voru báðar í einkennisbúningum og þarna voru handjárn og kylfur. Man ekki hvort svona byrjuðu einhverjir dagdraumar hjá manni þegar maður var að fá hvolpavitið, get borið fyrir mig minnisleysi sökum aldurs.
Alla vega, þetta er lífsreynsla sem ég lenti í bara núna í morgun. Kannski finnst einhverjum þetta hljóma spennandi, en get ég fullyrt það að þetta var ekki að gera neitt fyrir mig. Ef menn halda að sú frásögn sem fer hér á eftir muni gera eitthvað fyrir blóðþrýsinginn hjá þeim þá get ég sömuleiðis fullyrt að svo verður ekki.
Tilfinningin þegar maður uppgötvar að löggubíllinn sem er á eftir þér með blikkandi ljósin er í raun að blikka á þig er ekki að gera sig. Lítið hægt að gera en að leggja út í kant þarna á Sæbrautinni og vera teymdur inn í löggubílinn, af þeirri dökkhærðu, við litla hrifningu hjá mér. Þær voru eitthvað að fetta fingur út í það að kannski, mögulega, líklega hafi gula ljósið á gatnamótunum þarna áðan verið orðið full rautt. Þýddi lítið fyrir mig að malda í móinn, hlýddi bara þegar þær sögðu mér að kvitta þar sem x-ið var, fékk ökuskírteinið mitt til baka ásamt glósum um að ég væri unglegur á myndinni. Veit ekki hvort þetta átti að vera brandari til að milda andrúmsloftið, mér var alla vega ekki hlátur í huga. Drullaði mér inn í bílinn og bölvaði minni eigin heimsku í sand og ösku. Nú er bara að bíða eftir símtalinu frá starfsmannastjóranum þegar reikningurinn kemur, get varla notað ræðunum um að ég hafi verið að auglýsa Cocoa Puffs. Minnir að ég hafi notað hana síðast.
Nú veit ég hvað þær meina þegar þær tala um Girl Power.
þriðjudagur, janúar 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli