föstudagur, janúar 06, 2006

Komin og farinn

Þá er Inga kominn til landsins og Villi farinn. Fékk reglulega sms frá Villa á meðan hann var á ferðlaginu sem var ekkert smá ferðalag. Fyrst flaug hann til Frankfurt, síðan til Jóhannesarborgar í S-Afríku og svo loks til Windhoek í Namibíu. Maður tók nú svipaðan pakka þegar við Sigga fórum út 2003, rúmlega einn sólarhringur á ferð og flugi. Ég öfundaði hann ekki að vera með Rúnar Atla, tæplega 18 mánaða á svona ferðalagi en þetta hefur vonandi verið þokkalegt.

Inga tilkynnt mér það nánast um leið og hún sá mig að snjóbrettið hefði ratað með í farangrinum og því væri allt klárt. Ég veit ekki alveg hvað ég er búinn að koma mér út í, tala nú ekki um þegar hún dró upp úr töskunni sinni forláta skíða/brettahjálm. Ég á nú talsvert af búnaði fyrir svona sport sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina, allt “lítið” notað en hjálm á ég ekki. Fyrir þá sem ekki vita það þá fékk Ísak Máni snjóbretti í jólagjöf en hann á engan hjálm nema þá bara hjólahjálminn, sem er svo sem hægt að nota í þetta. Ég sé fram á það að ég verð að nota hjólahjálminn ef maður drattast í þetta með Ísaki Mána. Maður hefur reynt að vera ábyrgur uppalandi og nota hjólahjálm þegar við förum út að hjóla. Manni fannst þetta frekar lummó fyrst en þar sem að ég er harður á því að drengirnir noti hjálm þá er ekki um annað að ræða nema að nota eitt svoleiðis stykki sjálfur. Hjálmarnir eru nú orðnir þokkalega útlítandi svo þetta á nú alveg á réttri leið, manni er nú líka talsvert annt um toppstykkið því ég er alltaf að reyna telja mér trú um að það sé eitthvað í það spunnið. Man líka eftir einu sem ég sá síðasta sumar en þá var nágranni minn hérna í hverfinu úti að hjóla með fjölskylduna. Fyrst kom yngri dóttirin hjólandi, síðan kom eldri dóttirin og þá næst kom konan, allar með hjálm. Síðan kom karlinn og rak lestina en hann var hjálmlaus. Þetta horfði ég á og af einhverjum ástæðum fannst mér þetta óheyrilega hallærislegt.

Veit nú ekki af hverju ég er að velta mér upp úr snjóbrettum í mígandi rigningu og roki...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú verður að fara varlega.... Þetta sennilega endar með ósköpum.... Rifjaðu bara upp 6 vikur í gipsi eftir hina tilraunina í vetraríþróttum....

Nafnlaus sagði...

Vinsamlegast láttu mig vita næst þegar þú ferð að spóka þig um Breiðholtið með hjálm á hausnum... Þá ætla ég að mæta á svæðið með myndavélina hehehehe