Ég fæ stundum svona dellur. Þær fela aðallega í sér að ég vilji fá mér nýjan bíl eða að ég vilji taka hatt minn og staf og flytja. Tek ég svona nettar tarnir í þessu, ligg þá yfir fasteigna- og bílasölum á netinu og hugsa mikið en framkvæmi minna.
Núna er ég með íbúðardelluna. Ekki það að maður hafi það eitthvað slæmt þar sem maður er, alls ekki. Hér eru báðir drengirnir með sitt hvort herbergið, þvottahús í íbúðinni, nýleg eldhúsinnrétting og baðherbergið allt á réttri leið í endurbótum. Hvað vill maður meira? Jú, ég væri alveg til í sérinngang, lítinn bakgarð til að dunda sér með fótbolta yfir sumartímann, stærra svefnherbergi, stærra eldhús og svona eitt og annað sem maður sér í hillingum. Eitt af vandamálinu í þessu, ef vandamál skyldi kalla, er að ég vil ekki fara úr hverfinu því sama hvað menn segja um Breiðholtið þá er ég svona líka sáttur hérna, búinn að kaupa mér ÍR peysu og allt. Íbúðir hérna í hverfinu í kring sem hafa þennan sérinngang o.s.frv. eru margar hverjar alltof stórar, 200+ í fermetrum talið og ég hef ekkert við það að gera, hvað þá efni á því að borga fyrir það. Nei, ég er meira að hugsa í svona 130-160 fermetrum sem yrði alveg yfirdrifið fyrir mig og mína.
Það hefur dottið inn á fasteignasölur bæjarins svona ein og ein íbúð sem uppfyllir flestar af þessum óskum mínum en yfirleitt er alltaf eitthvað við þær sem gerir mér létt að afskrifa þær, enda hefur maður nú ekki verið að spá í þessu af neinni alvöru, það er ekki eins og ég sé að fara að skoða ásamt því að verðpunkturinn er nú talsvert annar en hann var ´99 þegar við Sigga keyptum þessa íbúð. En þá datt draumahúsið inn á fasteignavefinn, raðhús í Breiðholti með sérinngangi vitaskuld, 150 fermetrar á tveimur hæðum með stóru hjónaherbergi, æðislegu eldhúsi, bakgarði og bílskýli. Fljótt á litið (án þess að ég hafi farið og skoðað) þá virðist þetta uppfylla alla mína drauma. En eins fljótt og ég komst á flug þá brotlenti ég jafnharðan. Tæpar 35 millur sem menn vilja fá fyrir herlegheitin! Djöfulsins rugl. Ég gæti grátið.
Er maður reiðubúinn til að skuldsetja sig til fjandans, selja djöflinum sálu sína þangað til maður er kominn niður í 6 fetin? Fórna utanlandsferðum og öðru sem manni langaði kannski að gera næstu árin fyrir lengra bili milli útveggja?
Æi, þetta er bara steypa. Í bókstaflegri meiningu.
laugardagur, nóvember 11, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ótrúlegt hvað menn eru alltaf tilbúnir til að borga fyrir steypu
Skrifa ummæli