Maður reynir að ala syni sína rétt upp í einu og öllu. Vitaskuld hefur maður reynt að miðla áfram ást sinni á hinum ýmsu knattspyrnuliðum til drengjanna. Felur þetta í sér tilheyrandi treyjukaup og annar heilaþvottur. Hefur þetta gengið vonum framar held ég, Logi Snær er svona enn að meðtaka hlutina en Ísak Máni er lengra á veg kominn enda haft meiri tíma til að meðtaka hin heilögu orð.
En einhversstaðar á leiðinni klikkaði eitthvað hjá mér með frumburðinn. Vitaskuld fékk hann Manchester United strax með móðurmjólkinni, það mátti ekkert klikka með það og ítalska stórveldið AS Roma fylgdi svo fljótlega. Reyndar ætlaði mamma hans að vera voða sniðug einu sinni og fékk hann til að segja að hann héldi með Inter Milan, bara til að stríða mér og tók hann þetta einum of alvarlega því ég var lengri tíma að leiðrétta þá vitleysu. Enn í dag held ég að hann beri einhverjar taugar til Inter.
En eitthvað var ég of lengi að taka við mér með að innprenta gæði Barcelona frá Spáni inn í kollinn á honum því ég vaknaði við þá staðreynd einn dag að hann sýndi helstu keppinautunum, Real Madrid, mikinn áhuga. Var svo komið að því meira sem ég tautaði og raulaði þá varð hann staðfastari í ást sinni á Real Madrid, enda getur drengurinn verið nautþrjóskur þegar þannig liggur við. Eftir mikla rannsóknarvinnu af minni hálfu um ástæðu þessa feilspors þá grunar mig að aðalástæðan sé meistari David Beckham. Ísak Máni horfði stundum á videóspólur af honum í Manchesterbúning þegar hann var ca. 4 ára, eða um það leyti þegar Beckham var seldur til Real og þannig held ég að tengingin sé til komin.
Fór svo að ég gafst upp og gaf honum Real Madrid búning í jólagjöf, jólin 2004. Á vissan hátt hef ég smá gaman af þessu, við höfum átt nokkrar umræðurnar um Victor Valdes vs. Iker Casillas, Puyol vs. Cannavaro o.s.frv.
Svo skemmtilega vildi til að ég keypti nýja treyju handa honum í jólagjöf en fékk sjálfur frá þeim bræðrum Barca treyju. Hér sé fjör.
miðvikudagur, desember 27, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Flottir feðgar :-) Gleðilega hátið, jólakveðja Inga
Skrifa ummæli