Þá er hátindi jólanna lokið. Það var nú aðeins jólalegra að kíkja út í morgun heldur en í gær.
Aðdragandi aðfangadagskvölds var nú alveg furðulega þægilegur og fljótur að líða. Ísak Máni fór ekki að ókyrrast verulega fyrr en um 5 leytið og Logi Snær fór bara og lagði sig rúmlega 4 og svaf til hálf 6. Hamborgarhryggur í matinn, a.m.k. hjá 75% af fjölskyldunni en Logi lét sér nægja þrjár skeiðar af skyri enda hálfkrumpaður enn eftir lúrinn.
Framkvæmd pakkaopnunnarinnar var tekin fastari tökum enn í fyrra, enda var búið að strengja þess heit að mistök ársins áður skyldu ekki endurtaka sig. Þá misstu stjórnendurnir öll tök á málunum tiltölulega snemma og ástandið á stofunni eftir þann pakkagjörning var svona:
Reynið að finna tvö börn á myndinni.
Núna var skipulagið meira, þó ekki á kostnað gleðinnar og ástandið eftir opnun var talsvert betra:
Í dag fórum við síðan upp í Mosó eins og venjan er og fengum hangikjöt í hádeginu. Þar var borðað, spilað, borðað, horft á sjónvarpið, borðað, spilað aðeins meira og svo var borðað. Ísak Máni hélt svo litla tónleika á blokkflautuna sína en hann er að verða ansi fær á hana enda duglegur að æfa sig. Ég held að hann og Jökull frændi hans ætli að halda saman tónleika í fjölskylduboðinu um áramótin, það verður þó að koma í ljós.
Eitthvað af myndum frá aðfangadag komnar inn á myndasíðuna.
mánudagur, desember 25, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli