Prógrammið um helgina var nú ekki alveg eins stíft og ráðgert hafði verið. Hverfisklúbburinn var með dagskrá alla helgina sökum aldarafmælisins en stofndagurinn var einmitt 11. mars 1907. Fórum upp í Seljaskóla í gær en þar var uppákoma svona aðallega fyrir börnin, hoppukastalar, töframaður og einhver söngatriði. Ísak Máni var vitaskuld hæstánægður, endalausar ferðir í hoppukastala eftir hoppukastala, það er ekki hægt að hafa það mikið betra. Leiðindarveður í morgun og lítil stemming fyrir að fara niður á ÍR-svæðið og taka þátt í vígslunni á gervigrasinu og öðrum veisluhöldum tengdum afmælinu. Hálffúlt að veðrið hafi ekki verið betra því það hefði verið gaman að kíkja á þetta.
Knattspyrnuvertíðin er hafin hjá mér, fyrsti æfingaleikur Vatnsberanna var í kvöld og var spilað gegn FC Ice. 2:1 tap staðreynd í miklum vorbragsleik. Sáttur við minn leik prívat og persónulega svo að ég gat gengið sáttur af velli. Logi Snær spurði mig síðan þegar ég kom heim hvort ég hefði verið í fótbolta sem ég gekkst við. "Með Vassberunum?" hélt hann svo áfram. Flottur strákurinn, hann er að læra þetta.
Ég ætla að enda þennan pistill á því að óska eftir meiri frumleika hjá lógó framleiðendum þessa lands. Sá þetta SS merki fyrir nokkru og fannst eins og ég hefði séð það áður. Kannski er samvinna ÍR og SS (sem er einhver held ég) það náin að þeir hafi fengið svona 2 fyrir 1 tilboð á afmælislógóunum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli