Logi Snær getur verið rúmlega handfylli ef maður getur íslenskað þetta orðatiltæki þannig. Algjört fatafrík sem getur stundum gert mann alveg gráhærðan með dillunum í sér. Ekki þessar buxur, bara hinar og alls ekki þessi peysa, bara Batman peysan o.s.frv. Maður er yfirleitt með í maganum þegar hann fær ný föt því það sést alveg á fyrstu viðbrögðunum hvort hann kemur til með að taka viðkomandi flík í sátt eður ei. Ef honum hugnast þessi flík ekki þá mun það verða eilíf barátta að fá hann til að klæðast henni, alveg sama hvað maður tautar og raular. Honum er nefnilega ekki auðhaggað blessuðum drengnum.
Þessa dagana hefur hann dottið í þann gír að vera óvenjumikið með húfur innanhúss. Ekkert alvarlegt svo sem, harðneitar t.d. stundum að taka niður húfuna þegar hann kemur heim til sín úr leikskólanum og er svo að dandalast með hana á hausnum í einhvern tíma. Nú gerðist það eitt kvöldið að hann kallaði á mig eftir að hann var farinn upp í rúm og heimtaði að fá húfu, og auðvitað ekki bara einhverja húfu heldur ákveðna húfu. Enda ákveðinn drengur. Eitthvað reyndi undirritaður að malda í móinn og vísaði í að honum yrði líklega vel heitt á kollinum með flíshúfu á hausnum upp í rúmi. Hann var ekki á því og ég lét þetta eftir honum en sagði honum að taka af sér húfuna þegar honum yrði heitt. Ég fór svo bara fram og spáði ekkert meira í þetta, steingleymdi þessu öllu heldur. Ekkert heyrðist meira í mínum eftir þetta og af tilviljun einni saman álpaðist ég inn til hans áður en ég sjálfur skreið upp í rúm og við mér blasti þetta:
föstudagur, mars 09, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þetta fannst Rúnar Atla skemmtilegt að sjá. Einnig þótti honum sniðugt að sjá að Logi Snær skuli líka eiga Bangsímon kodda og sæng.
Verst var að hann vildi tala við Loga Snæ, en það gekk nú ekki í þetta sinn.
Skrifa ummæli