sunnudagur, janúar 13, 2008

Sá stóri og sá litli

Rosalega horfði maður mikið á Tomma og Jenna hérna í gamla daga, á sínum uppvaxtarárum. Enda frábært efni þar á ferð og hefur staðist tímans tönn. Man ekki hvort það var Kattarvinafélagið eða einhver álíka samkoma sem mótmælti þessum þáttum harðlega því alltaf var það Tommi greyið sem lenti illa í því. Skildi aldrei þetta væl, ég held að fyrirlitning mín á kattarkvikindum tengist ekkert minni upplifun á þessum þáttum í æsku.

Drengirnir mínir horfa á þetta og hafa gaman af og stundum slæst maður með og skemmtir sér ekki síður. Logi Snær er reyndar ekki að kaupa þá staðreynd að kötturinn heiti Tommi og músin Jenni. Hann er harður á því að kötturinn heiti Stóri Tommi og Jenni og músin heiti Litli Tommi og Jenni. Sama hvað tautar og raular.

Engin ummæli: