NFL Ofurskálin, úrslitaleikurinn í ameríska fótboltanum, var núna síðastliðnu nótt. Mitt lið, New York Giants, komst þangað og mætti New England Patriots. Má segja að þarna hafi Davíð mætt Golíat því New England ætlaði að skrá nafn sitt með feitu letri í sögubækurnar en þeir höfðu unnið alla 18 leiki sína á tímabilinu fram að úrslitaleiknum. Risarnir frá New York höfðu hins vegar verið í tómu basli, töpuðu fyrstu tveimur leikjunum á tímabilinu og rétt sluppu inn í úrslitakeppnina. Þar hins vegar hrukku þeir í gang og þurftu m.a. að vinna þrjá erfiða útileiki til að komast í ofurskálaleikinn. Í gegnum tíðina hef ég nú ekki alltaf horft á þennan úrslitaleik, hann er alltaf spilaður á sunnudagskvöldi að íslenskum tíma og klárast ekki fyrr en um miðja nótt. Oftar en ekki hef ég látið fyrri hálfleik duga. Núna var ég hinsvegar frekar tvístígandi, enda ekki á hverjum degi sem liðið mitt kemst þarna og svo var líka spennandi að sjá hvort Patriots myndi festa sig í sögunni sem besta liðið eða fengi Öskubusku-ferðalag Giants farsælan endi. Ég lét mig hafa það, leikurinn byrjaði um 23:30 og eftir að hvort lið hafði skorað í sinni fyrstu sókn, Giants vallarmark og Patriots snertimark gekk ekkert upp hjá liðunum fyrr en í síðasta fjórðungnum. Sá fjórðungur var algjör sýnikennsla í því hversu skemmtileg þessi íþrótt getur verið. Mínir menn komust í 10:7 en New England komst aftur yfir 10:14 þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir. Risarnir lögðu af stað í einhverja ótrúlegustu sókn sem undirritaður hefur séð og komust í 17:14 þegar 35 sekúndur voru eftir. Það reyndist of stuttur tími fyrir New England til að svara og einhver ótrúlegasti sigur í sögu ofurskálarinnar staðreynd og ég nánst búinn að naga gat á sófann af spenningi. Karlinn skreið upp í bólið rúmlega 3, rosalega þakklátur því að hafa ekki farið fyrr að sofa.
Þrátt fyrir að þeir sem nánast fyrirlíta þessa íþrótt séu háværir hér á landi þá hef ég gaman af henni, og skammast mín ekkert fyrir það. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég fylgist ekki af fullum þunga með þessu heldur er það frekar svo að ég horfi á leiki ef ég kem því við, það er ekki eins og ég þekki heilu og hálfu byrjunarliðin með nafni.
Upphafið að þessum áhuga mínum hlýtur að haldast í hendur við þá staðreynd að Stöð 2 fór að fjalla um þessa íþrótt, ætli það hafi ekki verið 1986 eða 1987. Þar voru vikulegir þættir þar sem farið var yfir leik frá því helginni áður. Svipað dæmi og íslenskir áhugamenn um ensku knattspyrnuna þurftu að láta sér nægja einhverjum áratugum áður. Ég og Úlli félagi minn gleyptum þetta í okkur. Það hefur eitthvað að segja í hans tilfelli að faðir hans var bandarískur og hafði spilað þetta í háskóla. Við útveguðum okkur svona bolta og lékum okkur margar kvöldstundirnar í þessu. Snérist sá leikur aðallega um það að ég var í hlutverki leikstjórnandans og reyndi að senda boltann á Úlla sem hafði tekið á rás upp völlinn. Steypuvöllurinn við Melaskólann var oftar en ekki leikvöllurinn. Man ég sérstaklega eftir Super Bowl 1988 þegar Washington Redskins áttu kappi við Denver Broncos en fyrir leikinn var Denver talið mun sigurstanglegri aðilinn. Ég studdi Redskins í leiknum vegna þess að þeir skörtuðu þeldökkum leikstjórnanda sem var, ef ég man rétt, sá fyrsti sem eitthvað lét að sér kveða í boltanum og líka vegna þess að enginn virtist hafa mikla trú á þeim. Svo var logóið þeirra líka svo flott... Við gerðum heiðarlega tilraun til að forðast úrslitin í eina viku enda var ráðgert að sýna frá leiknum helgina eftir. Tók ég meira að segja blaðsíðuna úr Mogganum sem fjallaði um leikinn og innsiglaði henni inn í umslag, Villa bróður ekki til mikillar skemmtunar. Vitaskuld gekk það ekki, úrslitin bárust okkur til eyrna en góðu fréttirnar voru þær að Washington rústaði leiknum, 42:10.
Ég varð svo frægur að útvega mér meira að segja treyju, New York Giants, í gegnum einn af gömlu póstbæklingunum sem mamma fékk alltaf reglulega. Hvort það var Quelle, Kays eða eitthvað annað man ég ekki. Þrátt fyrir mikla leit hef ég ekki fundið þessa treyju í mínum fórum sem þýðir að líklega hefur hún farið í ruslið, hversu furðulegt sem það kann að hljóma.
Ég man líka að á þessum tíma var hægt að kaupa eitthvað græjum til að stunda þetta sport í íþróttabúðinni sem var staðsett þarna í þessum umdeildu húsum í dag, Laugavegi 4 - 6. Mig rámar í það þegar einhverjir duglegir drengir fóru að stunda þessa íþrótt hér á landi. Einhver umræða virðist vera í gangi í dag um endurlífgun þessa sports á Íslandi og söguna hvers vegna þetta fór af stað á sínum tíma. Einn frumkvöðlanna er meira að segja að setja á netið eitthvað af myndbrotum frá þessum tíma, bæði eitthvað sem kom í sjónvarpinu og eitthvað sem rataði ekki í imbann. Það verður að segjast að þetta er hálfbroslegt en þó tekur maður ofan fyrir svona gaurum, sem láta hlutina gerast. Heimir Karls kemur líka þrælvel út. Meira um það --HÉR--
Geisp, spurning um að smella sér bara í sturtu bráðum og svo upp í rúm og reyna að vinna upp svefnleysi síðustu nætur.
mánudagur, febrúar 04, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Já þetta var rosalegur leikur svo ekki sé meira sagt. Ég lét mér nú samt nægja að horfa á hann á kristilegum tíma á mánudagskvöldið... geisp
ég sá bara 20 mínútna highlights úr þessum leik. Og djöfuls svaka 4 leikhluti hefur þetta verið. Fáránlegt að ná að grípa þessa sendingu frá Manning, en hann harður djöfull að losna frá varnarmönnunum. Ég er búinn að vera að fylgjast með þessu núna í vetur á Sky Sports, þeir hafa verið að sýna 3 leiki beint í röð á kveldi. Alger snilldar íþrótt, fífl eins og Valtýr Björn lét það út úr sér á föstudaginn að þetta væri fyrirsjáanleg íþrótt og ekkert nema auglýsingar. Sé engan mun á því að horfa á NFL með auglýsingum eða Tottenham-manu síðasta lau, hvað þá Liverpool leikina að undanförnu. Þá bið ég nú frekar um NFL..
Skrifa ummæli