sunnudagur, apríl 20, 2008

Af drottningum í myndalausum pistli

Ég vældi einhverntíma hér um það að Sigga væri að slá mér við þegar mynd af henni kom á valur.is. Enn á ný sló hún mér við með að komast á hinn geysiöfluga vef fotbolti.net eins og sjá má hér. Hverju hef ég áorkað? Umfjöllun á grundarfjordur.is, og ekki einu sinni mynd...

Drottingamót ÍR var haldið í gær, í annað skipti og sumir búnir að bíða spenntir alveg síðan í fyrra. Verst að Sigga var búin að vera lasin og hafði meira að segja ekki haft það í vinnuna á fimmtudaginn og föstudaginn. Það var því lítið annað að gera en hellast yfir öll hestu húsráðin í bókinni og mér var falið að fjárfesta í engiferrót, sítrónu og sitthvað fleira. Ásamt því var góðum skammti af hinum helstu verkjalyfjum innbyrt, í rúmlega leyfilegu magni.

Veðrið var frábært og 14 lið mætt til þátttöku. Ljóst er að ÍR drottningarnar höfðu vonast eftir fleiri stigum í hús en raun varð á. Oft var samt við ramman reip að draga og t.d. voru 2 töp fyrir KR og Breiðablik með minnsta mögulega mun þar sem lið andstæðinganna innihéldu m.a. fyrrverandi landsliðskempur. Gleðin var samt í fyrirrúmi og allir skemmtu sér hið besta ásamt því að framkvæmd mótsins tókst með ágætum en það hefur ansi mikið að segja í svona dæmi.

Mér tókst nú samt að gera upp á bak á þessum degi. Það var í raun tvennt sem ég átti að sjá um á meðan mótið var, annars vegar að hafa yfirumsjón með börnunum og hins vegar að sjá um myndavélina. Börnin komu nú ósködduð eftir 3 tíma veru niðri á ÍR vellinum en það sama er hins vegar ekki hægt að segja af myndavélahlutanum. Samviskusamlega hafði ég smellt rafhlöðunum úr myndavélinni í hleðslu kvöldið fyrir mót, minn með allt á tæru. Þegar ég hins vegar var kominn niður á völl, fyrsti leikur hafinn og ég gerði mig líklegan til að taka mynd af Siggu þegar hún geystist upp kantinn þá gerðist hins vegar ekkert. Mér til mikillar hrellingar þá uppgötvaði ég að rafhlöðurnar væru enn í hleðslu í eldhúsinu heima. Ég tók þá ákvörðun að skokka út á bensínstöðina við völlinn og kaupa bara rafhlöður til að leysa málið. Keypti rafhlöður frá þekktum framleiðanda sem gáfu sig að auki út fyrir að innihalda "special power" svo ég átti nú að vera í góðum málum. Ekki var ég nú upplitsdjarfur þegar þetta myndavélin virkaði ekki með þessum nýju sérstöku kröftum. Gat reyndar skoðað þær myndir sem voru á minniskortinu en þegar ég ætlaði að taka mynd þá fór skjárinn í hass og græjan harðneitaði að gera nokkuð fyrir mig. Taka skal fram að þessi myndavél er sú sem ég fékk í staðinn fyrir þá gömlu sem bilaði á Stamford Bridge hérna um árið, af öllum stöðum, þannig að ég var alveg með það á hreinu að þessi væri að bila líka. Ekki náði ég sem sagt að smella svo mikið sem einni mynd af drottningunni á heimilinu. Þegar ég kom heim smellti ég gömlu rafhlöðunum í og græjan virkaði alveg eins og hugur manns. Mér leið eins og asna og rifjaði upp samtal mitt við konuna eftir fyrsta leikinn hjá henni:

Ég: "Mér tókst að gleyma rafhlöðunum heima í hleðslu."
Sigga: "Skutlastu þá ekki bara heim og nær í þær?"
Ég: "Nei, nei, ég stekk bara hérna út í bensínstöð og kaupi nýjar, það hlýtur að verða í lagi."

Note to self: Alltaf að hlusta á konuna og gera mér grein fyrir að hennar hugmyndir eru yfirleitt líklegri til árangurs en mínar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við konurnar vitum ALLTAF betur, þetta er alveg undantekningalaust. Gott að þú gerir þér grein fyrir þvi Davíð minn