miðvikudagur, desember 31, 2008

2009 færist nær

Styttist í endann á þessu ári. Mönnum eins og mér fannst frábært að sjá flugeldabæklinginn sem kom inn um lúguna hérna um daginn, nú þurftum við að brenna fleiri peninga fyrir sama magn af flugeldum og í fyrra. Frábært.

En sem fyrr var ekki annað hægt en að kaupa einn pakka eða svo, enn kemst ég upp með að kaupa næstminnsta pakkann og gat meira að segja slegið um mig og keypt tvo aukapakka af hurðasprengjum. Allir sáttir.

Tókum svo forskot á sæluna með því að húrrast hérna út fljótlega eftir hádegið í dag og tortímdum eitthvað af þessu smádrasli, ýlum, froskum og hvað þetta heitir. „Stóru“ bomburnar fara upp í Æsufellið og munu væntanlega mæta örlögum sínum snemma í kvöld því ég ætla að njóta útsýnisins þegar leik stendur sem hæst en ekki vera grúfandi yfir eigin bombum og missa af öllu saman.

Áramótaheiti þetta árið? Kannski reyna að minnka að segja: SÆÆÆDDDLLLLL.

Gangið hægt um gleðinnar dyr og lifið heil.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla.
Áramótakveðja
Inga