Alltaf lætur maður plata sig í einhverja vitleysu. Eins og ég fór yfir á þessum vettvangi þá lét maður troða dómaraflautu upp í trantinn á sér um daginn. Ég vissi það þegar ég bauð mig fram í þetta hlutverkið að ég væri að grafa mig ofan í einhverja holu sem gæti orðið erfitt að komast upp úr.
Það fór líka svo að mér var bent á að það væri kannski ekki vitlaust að taka bara svokallað unglingadómarapróf en það gefur réttindi til að dæma eitthvað upp eftir unglingaflokkunum. Helstu fríðindi, ekki voru það launin sem öskruðu á mann, eru að með löglegt skírteini kemst maður inn á knattspyrnuleiki sumarsins án þess að greiða fyrir það. "Þetta er ekkert mál, rúmlega 2ja klst fyrirlestur eina kvöldstund og svo próf viku seinna" var mér tjáð. Ég lét til leiðast, mætti á fyrirlesturinn ásamt 3 öðrum feðrum á mínu reiki og öllum kjúklingum sem æfa með 3ja flokki ÍR. Stemmingin var ansi sérstök, svolítið eins og ég væri kominn í fyrsta bekk í menntó. Fyrirlesturinn sjálfur var nú ekkert stórmál en ég fékk reyndar nett sjokk þegar ég kom heim eftir fyrirlesturinn og fór að kíkja á lesefnið á netinu. Fleiri tugir blaðsíðna sem innihéldu skraufþurrar reglugerðir, greinagerðir og túlkunaratriði. Vissi að ég hefði aldrei meikað að fara í lögfræðina eins og Varði var að meina að ég hefði átt að gera hérna í den.
Mætti í prófið og komst þá að því að þetta var krossapróf, sem mér fannst að einfaldaði málið aðeins þótt það sé ekki algilt um krossapróf. Hvað um það, karlinn klóraði sig í gegnum það og telst nú fullgildur kjúklingur í dómarastéttinni. Get ekki sagt að þetta sé eitthvað heillandi, 5. flokkur á hálfum velli sleppur kannski alveg en ég ætla ekki að taka 11 manna boltann á þetta, þar hef ég ákveðið að draga mörkin.
sunnudagur, febrúar 28, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
vá davíð, jemin hvað ég er að kafna úr stolti hérna í norðrinu. Ertu orðin þá orðin núna sagnfræðimarkaðsdiplómukrakkadómari?
Góður hjá frosnum tám norðan heiða :-)
En flott hjá þér Davíð.
Skrifa ummæli