fimmtudagur, apríl 22, 2010

Einn ekki í góðum málum

Sumardagurinn fyrsti rann upp bjartur og fagur. Rifum mannskapinn út um kl 09:00 í morgun og héldum sem leið lá upp í Mosó. Inga og Hekla mætt á klakann í stutta heimsókn, við stoppuðum í bakaríinu og allt helv... gott bara.

Ég fór svo með dreng nr. 1 og dreng nr. 2 í smábíltúr en drengur nr. 1 þjáðist af valkvíða vegna sumargjafarinnar sinnar. Fékkst nú engin niðurstaða í það mál, ákveðið að setja það á smá bið, en við komum við í ísbúð og fengum okkur ís. Áfram allt gott.

Komum heim og þetta sama gengi sem hafði farið í ísbúðina var fljótlega sent á eitthvað nett sumarhúllumhæ við Hólmasel. Svolítið kalt, biðröðin í hoppukastalann ekkert spes en breakdanssýningin gerði gott mót. Meira gott en slæmt og því segjum við bara gott.

Komum heim og grillið var gert klárt í fyrsta sinn á árinu. Eðalkjöt og með því og svo var farið fyrir framan kassann og horft á Snæfell rúlla Keflavík upp í úrslitunum í körfunni og jafna einvígið í 1:1. Bara gott.

Fljótlega eftir leikinn, rétt rúmlega 21:00, segir konan við mig: "Hafðir þú eitthvað leitt hugann að því að dagurinn okkar er í dag, þú manst fyrir 16 árum?"...

...Ekki gott.

2 ummæli:

Gulla sagði...

Humm... Davíð, hvernig er hægt að klikka á þessu??

Nafnlaus sagði...

HA,HA,HA,HA, grunnvallar atriði DAVÍÐ!