sunnudagur, janúar 02, 2011

Springandi froskar í tíma og ótíma

Hvernig er það, hefur aldrei verið rætt um það að banna flugeldasölu beint til almúgans hérna á Íslandi? Get ekki sagt að ég muni eftir þessháttar umræðu. Fór svona að spá í þessu, hvað þetta er absúrt. Foreldrar að senda börnin sín út með eldspýtur, blys, froska og hvað þetta heitir nú allt saman. Ég þurfti að hvæsa á einhverja peyja sem voru að troða flugeldum inn í dekkjaróluna hérna út í garði og undanfarna daga hefur sprengjuvælið ómað í eyrum mér og mun væntanlega gera næstu daga. Las að það hefðu verið eitthvað af augnmeiðslum þessi áramótin, sem kemur svolítið á óvart þar sem mér finnst menn nokkuð duglegir að nota þessi hlífargleraugu. En það eru víst dæmi um að fólk hafi farið ansi illa út úr viðskiptum sínum við þessar græjur.

Ekki það, menn væru líklega að setja björgunarsveitirnar á hliðina með svona banni og hvaðan ættu þá að koma peningarnir? Víst lítið af varasjóðum hjá hinu opinbera þessa dagana.

Ég hef svo sem litlar hugmyndir um hvernig þetta er í öðrum löndum. Ég man þegar við eyddum jólum og áramótum út á Spáni fyrir einhverjum 20 árum þá þurfti hótelið að fá sérstakt leyfi til að sprengja upp nokkrum flugeldum, fyrir Íslendingana.

Ekki það að þetta sé að halda fyrir mér vöku, ekki nema í þeim skilningi ef ég sef ekki fyrir látum en svo slæmt hefur þetta ekki verið. Ég er þessi týpa sem finnst voðalega gaman að horfa á þetta en fæ lítið út úr því að kveikja sjálfur í. En þetta er væntanlega svo sterkt í þjóðarsálinni að margir myndi rísa upp á afturlappirnar ef svona umræða færi af stað af einhverri alvöru. Svo eru alltaf einhver túristagrey sem villast hingað til að sjá flugeldana. Og í viðtölum við þá segjast þeir flestir aldrei hafa séð annað eins.

Já, við Íslendingar.

Engin ummæli: