Ég hef alltaf haft smá auga með lélegustu liðunum í NBA. Aðalástæða þess er að liðið mitt, Sixers, á þann „heiður“ að eiga lélegasta sigurhlutfall á einu tímabili en 1972-1973 unnu þeir bara 9 leiki af 82. LA Clippers eru helst þeir sem hafa stundum kveikt í mér vonir síðustu ár að eitthvert annað lið taki þetta met en til þess þurfa menn að vera ansi hreint daprir og hingað til hafa öll lið, sama hversu léleg þau hafa verið, klórað sig í tveggja stafa tölu í fjölda sigurleikja.
Einnig fylgdist maður með stutta lífshlaupi Vancouver Grizzlies (liðið fluttist reyndar síðar til Memphis) á þeim árum þegar Villi og co bjuggu þar og á ég m.a. liðsbúning frá þeim sem mamma og Varði gáfu mér eftir einhverja heimsóknina þangað. Ekki voru sigurleikirnir mikið að þvælast fyrir því ágæta liði.
Cleveland er annað lið sem hefur ekki þótt merkilegur pappír í gegnum tíðina, nema kannski ef frá er talinn sá tími sem LeBron spilaði með þeim. Þeir unnu leik í nótt og enduðu þar með taphrinu sína sem hljóðaði upp á 26 tapleiki í röð, sem er met í NBA en gamla metið sem var 24 leikir sem áttu þeir sjálfir. Þeir eru þá komnir í 9 sigurleiki og hafa einhverja tæplega 30 leiki til að ná þeim tíunda og forða sér þá frá því að komast á stall með Philly. Það fór vel á því að loksins þegar þeir unnu leik þá varð Clippers fyrir valinu. Kannski ágætt að Cavs séu ekkert að hirða þetta met, hefur verið ágætisstemming fyrir þessu liði á þessu heimili, en fer reyndar aðeins minna fyrir því eftir að #23 lét sig hverfa og skildi félagana eftir í skítnum. Það er hálfbroslegt að menn eru farnir að gjóa augunum aðeins á litla liðið í LA, en þar er háloftafuglinn Blake Griffin að vekja eftirtekt á þessu heimili.
Cleveland og Clippers, þetta var álíka spennandi tvenna og gyllinæð og harðlífi þegar ég fór að fylgjast með þessu og flestallir héldu með Boston eða Lakers. En allt tekur þetta breytingum, kannski sem betur fer.
laugardagur, febrúar 12, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli