Ég tel mig hafa tilfinningaleg tengsl við tvö íþróttafélög á Íslandi. Á vissan hátt á ólíkan máta.
Þrátt fyrir að að hafa alist upp frá 6 ára aldri og fram undir 13 ára afmælið á Hagamelnum, steinsnar frá Frostaskjólinu og með KR-inga alltum kring þá hélt ég alltaf með Val. Villi bróðir hafði vitaskuld eitthvað um það að segja enda dripplaði hann körfubolta með Hlíðarendapiltum þannig að sú tenging var kannski ekki óeðlileg. En ég bjó aldrei í Hlíðunum, æfði aldrei sjálfur með Val og var aldrei þannig tengdur klúbbnum. Það var samt svo að þegar maður var kominn í Grundarfjörðinn þá hélt maður áfram stuðning sinn við klúbbinn, fylgdist með þeim úr fjarlægð taka einhverjar dollur í fótbolta og handbolta og var bara helsáttur með þetta. Maður var þó ekki fastagestur á vellinum af skiljanlegum ástæðum.
Eftir að maður flutti á mölina haustið 1996 þegar HÍ ferillinn hófst, fyrst á Baugatanga og síðar Eggertsgötuna, var ekki mikið um það að maður væri eitthvað að skoppast á völlinn. Sem fyrr, maður var ekki beint í hverfinu og né hafði einhverja sérstaka sameiginlega vinatengingu á Hlíðarenda. Breiðholtið tók við 1999 en áfram hélt maður að fylgjast með Völsurunum svona úr fjarska. Ég man enn eftir laugardagseftimiðdeginu í september þarna 1999 þegar ég stóð á gólfinu í GÁP og var að skella í lás. Ég hafði hlusta á leikinn í útvarpinu þegar Valur tapaði 3:1 fyrir Grindavík í lokaumferðinni og féllu úr efstu deild í fyrsta skipti í sögunni. Ég kom heim og fór í göngutúr um hverfið, svona til að hreinsa hugann. Sigga hélt að ég væri búinn að missa það. Bara svo til að strá salti í sárinn hafði KR, í vikunni áður, tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í 31 ár. Svo tók við jójó brölt á liðinu, upp og niður einhver 6 ár í röð held ég svo ekki var það til að æsa upp í manni áhugann. Fór þó við vel valin tækifæri, síðasta heimaleikinn á gamla vellinum á Hlíðarenda haustið 2005 og sá þá verða meistara 2007 í lokaleiknum á Íslandsmótinu á Laugardalsvellinum. Keypti mér svo einhvern tímann Valstreyju í einhverju flippi.
Ég set nú engan sérstakan byrjunarpunkt á tilfinningatengslin hin síðari. Þau hafa svona myndast með barnabröltinu, Ísak Máni var náttúrulega ekki gamall þegar maður var farinn að drösla honum niður í ÍR heimilið, var eitthvað á leikjanámskeiðum og byrjaði svo í fótboltanum, 5 eða 6 ára. Þá var málið, ólíkt hinum tengslunum, að maður bjó í hverfinu og varð reglulegur gestur í húsakynum félagsins, kynntist vitaskuld öðrum foreldrum, þáverandi framkvæmdarstjóri félagsins þekkti mig með nafni o.s.frv. Varð m.a. svo frægur að taka dómaraprófið í fótbolta hérna um árið einmitt í stól framkvæmdarstjórans. Á vellinum í Breiðholtinu er maður alltaf málkunnugur slatta af fólki.
Ég fór nú í 100 ára afmælið hjá ÍR á sínum tíma en held ég hafi lítið að gera á Hlíðarenda í dag, fylgist bara með þeim úr fjarlægð sem fyrr. Ég á hins vegar enn eftir að kaupa mér ÍR treyju, best að setja það á to-do-listann.
miðvikudagur, maí 11, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Bíddu... en Grundarfjörður???
Skrifa ummæli