sunnudagur, júní 24, 2012

Túristaferð

Flott veður í kortunum, sem varð raunin og við ákváðum að taka smá Suðurlandsrúnt í gær.  Ekkert alltof skipulagt, vildum bara sjá hvernig þetta þróaðist.  Byrjuðum á því að stoppa á Þingvöllum.  Ekki fastagestir þar og það verður að segjast okkur til hálfgerðar skammar að þetta var í fyrsta sinn sem við förum með börnin þangað.  Ísak Máni að detta í 13 árin og var að mæta í fyrsta sinn, hinir nýliðarnir eru því með aðeins betri tölfræði á bakinu varðandi aldur þeirra á sinni fyrstu Þingvallarferð.

Logi Snær, Daði Steinn og Ísak Máni á Þingvöllum
Daði Steinn og Sigga
Eigum við að stökkva?
Næst var haldið áfram og fyrir hálfgerða tilviljun var næsta stopp tekið á Laugarvatni þar sem Ísak og Logi fóru að vaða í sjálfu vatninu á meðan Daði tók smá fegrunarblund í bílnum.  Ég dýfði tánum þarna ofaní og minntist þess þegar ég var busaður þarna úti í vatninu fyrir einhverjum árum síðan af Sr. Óskari Hafsteini Óskarssyni og fleiri mönnum.
Logi Snær og Ísak Máni í Laugarvatni
Stoppuðum næst í Úthlíð hjá Ingu og Gunna þar sem verið var að heyja og klippa tré og þessháttar bústörf.  Kaldur drykkur á pallinum gerði helmikið fyrir mig þrátt fyrir að stemmingin hjá sumum kom og fór í bylgjum.  Samt ákveðið að halda áfram og henda sér og skoða Geysir, svona rétt til að sjá eins og eitt gos.  Það hafðist en við nenntum ekki að fara á Gullfoss, kannski það verði gert síðar í sumar en tilhugsunin að eltast á eftir Daða í svoleiðis pakka var ekkert sérstök.
Ákváðum að taka ekki sömu leiðina heim og enduðum því í Hveragerði á Blómstrandi dögum þar sem menn fengu sér ís og þessháttar á meðan mannskapurinn lék sér í einum af almenningsgörðum Hvergerðinga og naut sólarinnar.  Með það veganesti var síðasti spölurinn heim tekinn og held að allir hafi verið heilt yfir sáttir.

1 ummæli: