þriðjudagur, júní 18, 2013

2007 mætt í Breiðholtið


Ég hef nú einhverntímann talað um það að ég náði aldrei tengingu við flatskjái og góðæri, þetta væri bara einföld tækniþróun.  Maður getur víst ekki farið inn í raftækjaverslun í dag og keypt sér túbusjónvarp þó það væri til að bjarga lífinu.  En hvað um það, lét mig hafa það og verslaði eitt stykki nú á dögunum, m.a. til að HD-væðast.
Vitaskuld er þetta að þýða allskonar pælingar, ég er alveg vonlaus í öllu sem snýr að rafmagnssnúrum og þessháttar, einmitt þegar maður þráir að hafa hlutina með einföldum plug-and-play hætti en svo var víst ekki alveg raunin.  Ég komst að því eftir á að ef ég ætlaði að taka HD á þetta þá þurfti ég víst að uppfæra afruglarann, sem ég og gerði.  Það var ekki að virka svo ég hringdi aftur í þjónustuverið hjá símafyrirtækinu en þar á bæ tóku menn þá upp á því að tala um nýjan router, sem kostaði mig annan bíltúr með smá misskilingstvisti og kjánahrolli hjá mér, díses hvað maður upplifði sig mikinn hálfvita í öllu þessu ferli.  Endað með því að konan tók að sér að taka þriðja símtalið í þjónustuverið þegar ég var búinn að fara með gamla myndlykilinn og fá nýjan, fara aftur með nýja myndlykilinn til baka, til þess eins að koma heim með annan nýjan myndlykil og nýjan router.  HDMI, Scart, ljósleiðarakassinn og fleiri hugtök voru að brenna kerfið á karlinum yfirum.  Allavega, þá tókst að fá líf í þetta en eitthvað þarf að leysa meira til viðbótar til að fá allt til að virka eins og það á að gera.
Þrátt fyrir allt þetta brölt þá má boltinn í HD má alveg eiga það að hann er alveg að gera sig...

Engin ummæli: