Karlinn fór á snjóbretti bæði á laugardeginum og sunnudeginum. Skellti mér í brekkuna upp í Seljahverfi um 2 leytið á laugardeginum. Manchester United var 2:0 undir í hálfleik á móti Manchester City þannig að ég stóð upp úr sófanum og slökkti á imbanum, þoli ekki svona rugl. Inga mætti og var með Ara með sér, Guðrún og Jökull voru þarna og loks Ísak Máni. Ég var búinn að undirbúa mig svolítið á föstudagskvöldinu og reyndi að komast að því hvort ekki væri hægt að læra á snjóbretti á netinu, eða að lesa sér a.m.k. eitthvað um hvernig best væri að fóta sig á svona græju. Fann svo einhverja tækni sem kallast “The falling leaf pattern” sem mér fannst alveg meika sens. Las það og lagði á minnið hvernig ég ætti að beita tánum og hælunum og var staðráðinn í að prufa þetta á laugardeginum.
Ég hafði vitaskuld aldrei komið þarna í þessa brekku upp í Seljahverfinu, einhver diskalyfta þarna sem var ekki í gangi, almannarómur í brekkunni vildi meina að hún væri biluð. Var fyrir smá vonbrigðum með þetta allt. Brekkan var alveg temmileg fyrir svona gúbba eins og mig en hún var mjög mjó að mér fannst. Síðan var talsvert af fólki þarna og af einhverjum ástæðum sem ég get bara ekki skýrt út þá labbaði fólk upp miðja brekkuna þegar það var búið að renna sér niður, ekki meðfram brekkunni. Brekkan var sem sagt yfirleitt full af fólki, annars vegar þeir sem voru að renna sér niður og svo hins vegar þeir svo voru að labba upp aftur. Ég, byrjandinn, sem ætlaði að fara að leika eitthvað fallandi lauf þarna var sem sagt í vonlausum málum. Komst nú niður brekkuna án þess að negla eitthvað niður af þessari gangandi umferð sem þarna var en sá að þetta gengi aldrei upp. Ákváðum við þá að færa okkur þarna í brekkuna til hliðar en hún er styttri og brattari. Það var eitthvað hægt að æfa sig þarna en talsvert var maður á rassgatinu enda kaldasti líkamshlutinn þegar við ákváðum að láta gott heita.
Þar sem að ég var ekki nógu ánægður með hversu lítið hægt var að vera í aðalbrekkunni þá ákváðum við að reyna að fara aftur á sunnudeginum og vera frekar í fyrra fallinu. Fór það svo að ég, Sigga og Inga vorum mætt þarna um klukkan 11 og ekki hræða mætt. Þetta var náttúrulega allt annað að hafa sviðið útaf fyrir sig, þarna gat ég dundað mér í brekkunni þveri og endilangri. Sigga fékk að prufa brettið hjá Ingu og má segja að þetta hafi verið frumraun hennar, hún átti fína spretti í hlíðinni. Síðan fór eitthvað af fólki að mæta þarna, þó ekkert eins og á laugardeginum.
Niðurstaðan á þessu öllu saman er að ég er enn arfaslakur á snjóbretti, en verð vonandi skömminni skárri með hverju skipti. Það er nefnilega ótrúlega gaman þá stuttu skorpur þegar ég finn að ég hef smá stjórn á brettinu. Mjög stuttu skorpur.
mánudagur, janúar 16, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Davíð minn takk fyrir matarboðið í gærkvöldi.... og ég held að þú bara verðir að æfa þig meira á þessu bretti þínu
Skrifa ummæli