Ég er fallinn. Fjárinn. Ég var búinn að lofa sjálfum mér að gera þetta aldrei. Aldrei!
En ég bara gat ekki haldið aftur af mér. Fjárinn. Ég bara trúi þessu ekki.
Íslendingar í biðröð fyrir utan raftækjaverslun, allir með von í brjósti um að “græða” þessi lifandi ósköp. Sorgleg mynd með afbrigðum.
Raftækjaauglýsingar með ofurtilboðum. Ég veit ekki hversu oft ég hef fussaði yfir þeim. Og ég tala nú ekki um þegar það er auglýst takmarkað magn, aðeins 10 stk, 50 stk. eða 100 stk o.s.frv. Þá finnst mér botninum náð. En menn virðast láta sig hafa það. En ekki ég. Ekki fyrr en núna. Reyndar þurfti ég ekki að mæta fyrir opnun og fara í biðröð en sú staðreynd linar lítið sársaukann... skömmina.
Sl. föstudagsmorgun, bóndadag, um klukkan 9:32 var ég staddur fyrir utan BT í Skeifunni. Það var búið að taka 9.999 krónur af kortinu mínu en í staðinn stóð ég með Playstation 2 leikjatölvu og einn leik undir hendinni. Mér leið furðulega.
Sagan byrjaði þannig að Sigga hafði spurt mig að því deginum áður hvað mig langaði í bóndadagsgjöf og af einhverjum ástæðum barst PS2 í tal. Líklega vegna þess að það hafði komið pési frá BT þar sem þeir auglýstu útsölu á ýmsu dóti og þar á meðal svona tölvu, aðeins 100 stk. þó. Það síðasta sem hún sagði við mig áður en hún fór í vinnuna á föstudagmorgninum var að ef ég mig langaði mikið í þetta þá ætti ég bara að fara og kaupa þetta. Ég held samt að hún hafi aldrei búist við að ég myndi taka hana á orðinu.
Ég hef aldrei verið mikill tölvuleikjakarl. Ísak Máni hefur verið margfalt spenntari fyrir svona græju heldur en ég. Kannski æsir hann upp barnið í mér, án þess að ég ætli að fara klína þessum kaupum á reikninginn hjá honum. Reyni líka að telja mér trú um það að þar sem þetta sé nú líka DVD spilari þá sé þetta meiri græja en bara leikjatölva.
Hvernig var þetta svo? Finnst mér ég hafa grætt á þessum viðskiptum? Svarið er eitthvað já og eitthvað nei. 10.000 kr fyrir svona tölvu plús leikur er í raun já-hlutinn. Ég veit að það fer að styttast í Playstation 3 og allt það en ég var var ánægður með að fá þessa græju fyrir þennan pening. Þá var það sennilega nei-hlutinn. Auðvitað fylgdi bara einn stýripinni (eins og þetta hét alla vega í gamla daga) og ég þurfti að kaupa annan því mikið af þessum leikjum bjóða upp á möguleikann að tveir spili saman leik. 2.500 kr sem bættust við þar. Svo vantaði minniskort til að vista leikina, 4.000 kr þar til viðbótar. Vitaskuld var ekki hægt að tengja þessa græju í sjónvarpið inn í stofu, þannig að maður þurfti að redda nýju sjónvarpi. 7.995 kr sem fóru í það.
Tíminn einn verður að leiða það í ljós hversu sáttur ég verð við þessi heildarviðskipti. En samt líður mér frekar illa yfir að hafa hlaupið á eftir þessu “aðeins 100 stk.”-tilboði.
Ég verð að taka mér tak. Aldrei aftur.
sunnudagur, janúar 22, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Davíð ég trúi þessu ekki uppá þig !!!!!!! Alltaf hef ég verið svo stolt af því að þú ert ekki einn af þessu raftækjaíslendingum, ekki er ég það hahhahahaha
Bwahahahahahahahahaha góður. Af hverju talaðiru ekki við frænda þinn? Ég held að ég lumi á einhverjum gömlum stýripinna sem ég er hættur að nota... enda X-Box aðal málið núna, og gott ef ég á ekki minniskortið líka, er ekki alveg viss. En samt góður díll (ef þú hefur fengið einhvern fótboltaleik með)
Skrifa ummæli