föstudagur, febrúar 17, 2006

Hápunktur ferilsins

Spilaði æfingarleik á þriðjudaginn. Nei, ekki með mínum ástkæru Vatnsberum heldur FC Fame. Fékk símatal frá einum liðsmanni þeirra sem vinnur með Tomma þar sem kom fram að sökum manneklu vantaði þeim einhvern til að standa á milli stanganna í æfingarleik. Ég lét til leiðast, var reyndar á sama tíma og æfingar Vatnsberanna fara fram þannig að það var smá Júdas fílingur í þessu. En það var ágætt að fá smátest á stórum velli, hef ekki stundað það síðan sl. sumar. Fyrir þá sem ekki vita er FC Fame utandeildarlið en telst víst eitthvað merkilegri pappír en Vatnsberarnir, geta víst bent á betri árangur í gegnum tíðina. Þrátt fyrir 2-1 tap hjá "okkur" þá held ég að undirritaður hafa komist alveg skammlaust frá þessu, það var oft meira fjör í vítateignum hjá mér með Vatnsberunum sl. sumar.

Veit ekki hvort maður á að fyllast lotningu að hafa fengið að spila með svona stórklúbb (eins og sumir vildu meina þarna á þriðjudeginum) en ætli þetta fari ekki í ferilskránna. Veit ekki af hverju en ég fór allt í einu að hugsa um leikina sem maður hefur spilað í gegnum tíðina og gerði mér þá grein fyrir að það vantar stórlega stórleiki undir beltið. Held svei mér að stærsti leikurinn á ferlinum (n.b. hingað til) hafi verið með liði Fjölbrautarskóla Vesturlands, Akranesi þegar þeir spiluðu við Menntaskólanum við Sund á einhverju framhaldsskólamóti. Hversu sorglegt er það? Þetta hefur verið sennilega 1994 eða 1995 og var spilað á gamla Þróttaravellinum, held að það hafi verið malarvöllur. Lið FVA hafði spilað einn leik áður í mótinu en þar hafði markmaðurinn gert sig seka um einhver mistök þannig að ég fékk það í gegn hjá Ragga Vals, sem sá um þetta, að ég fengi að spreyta mig. Fékk byrjunarliðssæti og við unnum leikinn 3:1. Leikurinn fer í sögubækurnar hjá mér aðallega vegna þess að þarna var maður að spila með hinum ýmsu Skagahetjum sem reyndar komust mislangt með ferilinn. Helsta skyldi líklega telja þá Bjarna Guðjónsson og Jóhannes Harðarson. Minnir meira að segja að Fjalar Þorgeirsson markvörður Þróttar til einhverra ára hafi dæmt leikinn en það gæti verið misminni. Eins og það voru góð úrslit þá voru vonbrigðin talsverð þegar Iðnskólinn í Hafnarfirði mætti ekki þegar þeir áttu að spila við okkur nokkrum dögum seinna og sökum slæmra úrslita í fyrsta leiknum þá komust við ekki upp úr riðlinum og Skagaferlinum lauk jafn snögglega og hann hófst.

Maður hefur nú smátíma til að toppa þetta, ég horfi til úrslitaleiks bikarkeppni utandeildarinnar, næsta sumar jafnvel. Sé þetta alveg fyrir mér, fer í vítaspyrnukeppni og allt. Ég er meira að segja búinn að sjá út hvar fyrstu þrír spyrnumenn andstæðinganna ætla að setja hann.

Málið dautt.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ahhhh geisp !!!

Nafnlaus sagði...

Hmm, þetta vekur bara upp gamlar minningar...gull með Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og spilaði ekki einu sinni úrslitaleikinn, en gullið er ennþá til:-)

Nafnlaus sagði...

Eru menn að missa sig í spádómunum??? Ég held að stefnan sé sett á bættan árangur, látum allt tal um úrsitaleiki og bikardrauma bíða betri tíma.... í bili.

Svo er FC Fame ekkert merkilegri pappír, nema þá ef væri skeinipappír... djöfull grófir. Svo töpuðu þeir fyrir okkur í fyrra sælla minninga (reyndar í æfingaleik but what the heck)