mánudagur, febrúar 27, 2006

Ferðasagan

Þá er maður kominn heim eftir þessa ferð.

London

Fórum frá Bristol til London á föstudeginum, lögðum snemma af stað og vorum komnir um hádegisbilið. Á leiðinni í morgunmat þá sá ég Gordon Banks, gömlu markvarðarhetju Englendinga vera að tjékka sig út, fór svona að spá í því eftir á hvort ég hefði átt að fá karlinn til að kvitta á einhverja servíettu. Datt það ekki í hug þegar ég hafði tækifæri til þess þannig að líklega var þetta ekki nógu merkileg upplifun. Þegar við komum til London skiluðum við af okkur bílaleigubílnum og komum okkur á hótelið, St. Giles. Algjör kústaskápaherbergi en snilldarstaðsetning, rétt hjá Oxford Street. Tókum það sem eftir lifði föstudagsins í rólegheit, búðarrölt (bæði matvöru og ekki). Fórum svo út að borða um kvöldið á þvílíku snilldina. Asískur staður sem heitir Hakkasan og það var greinilegt að þetta var eitthvað hipp og kúl dæmi, þotuliðastaður. Áttum pantað borð klukkan 21:45 og sátum þar í góðum fíling en þegar við röltum út á miðnætti þá var enn eitthvað fólk að koma sem átti pantað borð. Hver fer út að borða á miðnætti? Það var ekki hægt að komast inn bara til að fara á barinn nema að þú ættir pantað ... á barinn. Þvílíkt góður matur að ég átti ekki til orð, allskonar rækjur, endur, lambakjöt og ég veit ekki hvað og hvað. En eitthvað hefur pakkinn kostað því yfirmaðurinn leit á reikninginn, brosti út í annað og sagði: "Strákar, það er McDonalds á morgun". En ég mæli með þessu ef þið eigið ferð til London, þó að þið þurfið að lifa á vatni og brauði í einhvern tíma á eftir.

Römbuðum svo inn á eitthvað spilavíti, helfullt af kínverjum og indverjum, allir spilandi upp á eitthvað bölvað klink. Ég rambaði út alveg 15 pundum fátækari og útlærður í Black Jack. Reyndar voru önnur borð þarna þar sem var verið að spila uppá talsvert hærri tölur.

Leikurinn

Svo var það Chelsea – Portsmouth á laugardeginu. Náði að skrötla út í bítið á laugardeginum, svona rétt til að redda einhverju smáræði handa fjölskyldumeðlimunum en við fóru svo um hádegisbilið út á Stamford Bridge. Fengum okkur hálfsjoppulega langloku þarna á stað í Chelsea Village en þar var svona fjölskyldustemming. Gaman að fara þarna með reyndari mönnum en annar Chelsea maðurinn í ferðinni var að fara í 20. skipti. Okkur grænjöxlunum var tjáð að við yrðu að fara á annan bar þarna við völlinn sem heitir So bar. Sem við gerðum. Jesús Kristur. Ef ég hefði verið með Manchester United barmmerki á mér þá hefði ég líklega étið það með nælunni og öllu. Að koma þarna inn var eins og góðum rokktónleikum á Íslandi, alveg upp við sviðið. Tróðst inn og elti strákana sem á einhvern óskiljanlegan hátt komust upp að barnum og gátu reddað bjór. Maður þurfti að halda á glasinu upp fyrir haus, annað var ekki hægt sökum troðnings. Upp á einu borðinu stóðu nokkrir drengir, krúnurakaðir með öl í annarri og sígarettu í hinni. Þeir stjórnuðu hópsöng með miklum tilþrifum. Flestir, ef ekki allir, söngvarnir snérust annars vegar um eigið ágæti, þ.e. Chelsea og hins vegar um eymd annarra liða. Það var auðvitað ekki hægt annað en að rekast á Íslendinga þarna sem og annarsstaðar. Willum Þór, þjálfari Vals í fótbolta var þarna og hann var málkunnunur einhverjum úr hópnum okkar. Ég gerðist svo djarfur að ýja að því að fá Eið Smára aftur að Hlíðarenda, hugmynd sem Willum leist alls ekki illa á, þetta væri bara frekar spurning um framkvæmdarútfærslu.

Leikurinn sjálfur var svo sem ekkert sérstakur, fyrri hálfleikurinn steindauður en rættist aðeins í síðari hálfleik, tala nú ekki um þegar Eiður kom inná og breytti leiknum. Minnir að fyrirsögnin í The Daily Mail daginn eftir leikinn hafi verið eitthvað á þessa leið: Ice-cool Eidur lifts Jose blues. Auðvitað vildi maður sjá hérna 4:4 og Chelsea aðeins misstíga sig en maður sat þarna fyrst og fremst raunsær. Varð reyndar helv… fúll því myndavélin klikkaði á meðan leiknum stóð, rétt búinn að taka nokkrar myndir í ferðinni og vélin harðneitaði að gera nokkuð meira. Fúlt maður.

Fórum svo á Chelsea hótelið eftir leikinn, rak augun í Petr Cech, en hef víst lítið til að bakka það vegna fyrrnefnds myndavélamála. Fúlt maður. Vorum svo á efri hæðinni að sötra bjór þegar einn úr hópnum mætti á svæðið en hann hafði verið að rölta á neðri hæðinni. Hann tekur upp símann sinn (myndavélasími) og við okkur blasir mynd af honum og Frank Lampard, sem hann rakst á þarna niðri. Magnað maður.

Fórum svo út að éta um kvöldið á stað sem heitir Gaucho Grill sem sérhæfir sig í argentískum steikum, það var mjög gott.

Heim

Þreyta var málið á sunnudeginum, heimfarardeginum. Hafði lítið sofið á þessu hóteli í London, hart rúmið, of kalt inni í herberginu og of bjart. Það var alla vega eitthvað ekki að virka. Áttum flug kl. 13:00 sem var ágætt, maður þurfti ekki að rífa sig of snemma upp og var kominn inn um dyrnar heima hjá mér um sex leytið.
Þreyttur en sáttur.

5 atriði sem sitja eftir svona ferð:


Óskiljanleg staðreynd að stór borg eins og Bristol eigi ekki eitt þokkalegt fótboltalið, aðeins tvö léleg.

Sætar stelpur eru ekki eins sætar í Chelsea búning.

Krúttleg börn eru ekki eins krúttleg í Chelsea búning.

Bjór fyrir morgunmat er ekki að virka, sá dæmi um það.

Ég er búinn að sjá Portsmouth spila jafnoft og Manchester United.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að þú skemmtir þér vel á Scumford Bridge til þess að missa af eina titli Júnæted á þessu sísoni

Nafnlaus sagði...

Það er gott að heyra að þetta var góð og skemmtileg ferð, en hún hefði nú orðið miklu skemmtilegtri ef við hefðum hist á flugvellinum, ekki satt...

Davíð Hansson Wíum sagði...

Jú, jú, það hefði bara verið til að toppa ferðina