miðvikudagur, maí 17, 2006

Aðallega magakveisa

Æi, þetta hafa verið skrítnir dagar. Logi Snær náttúrulega búinn að vera í tómu rugli en er allur að koma til. Hann fór í leikskólann á mánudaginn, var reyndar voðalega tuskulegur en kom svo fljótlega til. Núna er hann líkari sjálfum sér, skammar okkur og lætur okkur heyra það ef hann er ekki sáttur við lífið og tilveruna. Það ber helst til tíðinda að hann er farinn að fara allra sinna ferða um á þríhjóli. Við fengum þetta forláta notaða þríhjól sem við borguðum alveg heilar 1.000 kr fyrir. Logi Snær var fljótur að komast upp á lagið með þetta, byrjaði hérna á stofugólfinu en brunar núna hérna úti í U-inu alveg á fullu. Stundum þannig að manni finnst alveg nóg um, hann vill helst láta sig vaða upp og niður allar brekkur og hóla.

Ekki veit ég hvort Logi Snær hefur smitað karl föður sinn af einhverjum óþverra en ljóst er að magastarfsemin á þeim bænum er ekki eins og best verður á kosið. Hefur nú ekki haldið mér frá vinnu en við skulum orða það þannig að mér líður betur vitandi af klósetti innan seilingar eftir að ég hef innbyrt einhverjar máltíðir, ekki verður farið út í nánari lýsingar á þessu hérna á þessum miðli.

Vona að ég verði orðinn góður um helgina, hin margrómaða utandeild að fara af stað en við eigum fyrsta leik á sunnudaginn. Má ég þá biðja um einhver karlmannlegri meiðsli, einhver sem tengjast ekki óhóflegri klósettsetu, takk.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jakk a bjakk.... Vonandi gengur þetta fljótt yfir hjá þér.