Karlinn búinn að vera einn heima núna um helgina. 75% af fjölskyldunni fannst meira spennandi að fara vestur og skoða me-me hausa í lifanda lífi en að chilla hérna í höfuðborginni. Þar sem genin sem kveikja áhuga þegar rollur eru annars vegar vantar í mig og hins vegar voru Vatnsberarnir að spila æfingaleik í gær, gerði það að verkum að ég sat eftir heima. Get ekki sagt að maður hafi verið djúpstæður á meðan maður var bara 25%, en það var reynt að dunda sér eitthvað.
Hef verið að fylgjast með Heimsmeistarmótinu í snóker á Eurosport, svona með öðru. Það er eiginlega Ísaki Mána að “kenna”, hann datt inn í þetta núna fyrir helgi og honum finnst þetta alveg æðislegt. Ég sogaðist með honum inn í þetta og það er alveg merkilegt hvað þetta getur verið ávanabindandi. Okkar maður, Ronnie O´Sullivan, datt út í undanúrslitunum í gær og því eru úrslitin ekki eins spennandi fyrir vikið, en spennandi þó. Hugsaði með mér hvað væri gaman að eiga svona borð en geri mér grein fyrir að ég þyrfti að eiga stærra hús fyrir svona græju, það er ekki eins og séu mörg ónotuð herbergi hérna í íbúðinni. Man samt eftir því að þegar ég var lítill patti þá var til svona lítil útgáfa af einhverju svona borði, ætli það hafi ekki tilheyrt Villa. Það var þannig útbúið að það var á mjög stuttum fótum og því þurfti maður að hafa það uppi á einhverju borði þegar verið var að spila. Það hafði einhvern tímann lent í einhverju tjóni því það þurfti að vera þvinga á einu horninu til að borðið væri rétt, þekki þá sögu ekki. Það skipti engu máli, í minningunni var þetta borð algjört gull. Þetta er kannski einhver fortíðarhyggja, bara svo gaman að dunda sér í einhverju svona en ekki alltaf þessir helv… tölvuleikir og þessháttar. Spurning hvort maður fari á stúfana og leiti að svona borði? Ætli það. Kannski þegar ég verð búinn að kaupa mér stærra hús.
mánudagur, maí 01, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Ég man líka eftir þessu borði og ég man líka eftir af hverju það brotnaði..... Ég settist á það til að sjá hvort það mundi halda mér :/
Skrifa ummæli