mánudagur, september 04, 2006

Frú Jóhanna


Þá er Jóhanna orðin Frú Jóhanna og ég er síðasta barnið hennar mömmu sem lifi í synd. Tókum stefnuna á Grundarfjörðinn á föstudeginum með mikilvægan farangur, sjálfan brúðarkjólinn. Þar var þokkalegasta fjör, mamma búin að panta hjólhýsi til að smella því út í garð svo Villi og fjölskylda þyrftu ekki að gista í stofunni enda hefur honum löngum verið úthýst að eigin sögn. Þetta gekk allt stórslysalaust á brúðkaupsdeginum, svolítið stress í gangi þarna rétt fyrir athöfnina en allt samt hafðist þetta og allir sögðu já. Athöfnin var stutt, talsvert styttri en ég hafði búist við en það var svo sem fínt bara, algjör óþarfi að vera með einhverjar málalengingar. Veislan var svo haldin á Kaffi 59 þar sem allir fengu nóg að éta og drekka. Meistari Óli Siggi klikkaði ekki í matseldinni frekar en fyrri daginn. Eins og oft vill verða þá endust menn mislengi í djamminu og voru því að skila sér heim á mismunadi tíma sólarhringsins. Svo mismunandi að mamma sagði bara hingað og ekki lengra og skellti bara í lás þegar henni fannst nóg um með þeim afleiðingum að hún læsti eina tengdadóttir og eitt barnabarn úti. Sem betur fer hafði þeim verið úthlutað koju í fyrrnefndu hjólhýsi og allt fór þetta vel að lokum. Ef þetta var ekki nægilegt aðhlátursefni daginn eftir þá sáu brúðhjónin um að viðhalda hlátrinum þegar símtalið kom frá Hótel Búðum þarna um morguninn en þar höfðu þau eytt brúðkaupsnóttinni. Kom þá í ljós að þau höfðu fengið far með öðrum bíl þangað út eftir en stóð um í upprunarlega handritinu. Var taskan með aukafötunum eftir í bílnum á bílastæðinu við Kaffi 59 en þau fór allslaus út að Búðum. Nei, ekki alveg allslaus því þau tóku bíllykilinn að bílnum sem hafði töskuna að geyma með sér. Kostaði þetta smásnatt nokkra manna á milli Grundarfjarðar og Búða, en það verður nú að vera smá fjör í þessu.

Nei, ég veit ekki hvenær ég ætla að gifta mig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hehehehe