laugardagur, október 28, 2006

Fjórir spenar í stað vinarins

Kaninn getur verið alveg rosalega klikkaður. Við Ísak Máni fórum á forsýningu á einhverri amerískri vellu teiknimynd, Barnyard, en Sigga hafði orðið sér út um tvo frímiða og auðvitað nýttum við okkur tækifærið. Í grófum dráttum var myndin um dýr á einhverju sveitabýli en þegar mannskepnan var ekki að fylgjast með þá gengu þau upprétt og töluðu mannamál. Hvað um það, aðalsöguhetjan hét Oddur (Otis) og pabbi hans var Brjánn (Ben) og þeir voru beljur eða naut öllu heldur. Það hefur greinilega ekki verið nein stemming í henni Ameríku að hafa tvo upprétta tudda með þetta allra heilagasta dinglandi fyrir framan börnin og það var leyst hvernig? Jú, þeir smelltu bara júgur framan á tuddana eins og það væri ekkert sjálfsagðara. Enda hallaði Ísak Máni sér að mér fljótlega eftir að myndin var byrjuð og hvíslaði: "En pabbi, naut eru ekki með spena". Held að þetta sé það sem þeir kalla að vera kýrskýr. Veit ekki hvaða áhrif svona myndir hafa á kýrskýrleika barna í Bandaríkjunum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Djísús... Væri þá ekki skárra að láta þá vera í rauðri sundskýlu ala Hasselhoff eða eitthvað... come on

Nafnlaus sagði...

Þetta virðist hafa verið afar athyglisverð mynd og það er greynilegt að það er ekki auðvelt að plata Ísak Mána enda komin af sveitafólki
kveðja, Inga