Helgin kom og fór. Sigga fór vestur svo það var þriggja karla helgi hérna í Eyjabakkanum.
Laugardagurinn byrjaði snemma eins og venjan er orðin. Ísak Máni á fótboltaæfingu kl 9:50 þannig að það þýddi ekkert að stripplast á næturklæðunum langt fram eftir morgni. Fínt fyrir alla að losa smá orku inni í íþróttahúsi, sérstaklega þegar veðrið var jafnömurlegt og það var, rigning og rok. Sökum þess var nú ekki mikið hægt að vera útivið en menn fundu sér eitthvað til dundurs. Bolti í sjónvarpinu og nokkrir viðbótamaurar mættu á svæðið í Playstation, nýji Star Wars lego leikurinn að gera gott mót. Ég tók þá meðvituðu ákvörðun um að fara EKKI í nýju IKEA búðina eins og hinir plebbarnir. Auðvitað er þetta eitthvað sem maður verður að kíkja á en ekki fyrstu helgina eftir opnun, einhverntímann seinna. Fór þó í einhverja Leikbæjarútsölu, aðallega bara til að komast aðeins út úr húsi en hélt langan pistill yfir drengjunum að við værum ekki að fara þangað til að kaupa eitthvað heldur aðallega bara til að skoða og ef ég myndi kaupa eitthvað þá væri það eitthvað mjög lítið og mjög ódýrt. Fór svo að eftir stutt rölt þarna fóru við út, þeir með sinn hvorn dótakarlinn og ég 200 kr. fátækari.
Við reyndum bara að dúlla okkur hérna í dag, enda úrhellisrignig og lítið útivistarveður. Hræðum í eina Betty Crocker og höfðum það gott, ef menn hafa ekki prófað gulrótarkökuna þá hafa menn ekki lifað lífinu. Ákváðum síðan að réttast væri að styðja handboltalið hverfisklúbbsins og fórum og sáum ÍR - Fylkir. Ég var smá smeykur við að taka Loga Snæ með mér vegna hávaðans sem er oft á svona leikjum en þetta bjargaðist allt saman. Sátum ekkert of nálægt trommunum en nóg var hávaðinn samt. Sá litli var orðinn frekar lúinn en var samt ósköp þægur og góður. Því miður tapaði ÍR leiknum og virðist eiga erfiðan vetur framundan.
sunnudagur, október 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli