laugardagur, mars 17, 2007
Handboltamót hið fyrsta
Þá er því lokið, fyrsta handboltamótinu sem Ísak Máni fór að spila á. Spilað var í Mýrinni þeirra Garðbæinga og spiluðu þeir þrjá leiki, við HK, Víking og Fylki. Ekki vissum við hvað við vorum að fara út í enda öll okkar mótareynsla komin úr knattspyrnunni. Þetta var spilað á litlum völlum, 4 inná + markmaður og lítið verið að æsa sig yfir hlutum eins og skrefum, tvígripi og öðrum smámunum enda greinilegt að leikmenn á þessu móti voru með handboltareglurnar mismikið á hreinu.
Þetta innlegg í reynslubankann fór nú ekki alveg nógu vel í mannskapinn. Fyrir það fyrsta fannst foreldrunum þetta ekki alveg nógu skipulagt. Við vorum mætt þarna skömmu fyrir klukkan 13:00 en þremur og hálfum tíma seinna var þriðja og síðast leik okkar manna að ljúka. Stundum var ekki einu sinni verið að spila á öllum völlunum. Ekki fannst mér þetta því vel unnið, séð með augum yfirmanns leikjamála á knattspyrnumótum haldin á vegum 7. flokks ÍR. Sjoppumálin voru líka svakalega döpur, það hlýtur að vera kappsmál þegar þú ertu að stjórna svona móti þar sem fyrstu liðin byrja kl. 9:00 og allt stendur til kl. 18:00 að vera með nóg af gosi og þessháttar til að selja. Þarna var hins vegar bara grænn kristall til sölu eftir kl. 14:00.
Ísak Máni byrjaði vel á mótinu, var óragur við að skjóta en fór svo að draga sig inn í skelina þegar samherjarnir fóru að rífast um hver ætti að enda sóknirnar og lýstu m.a. yfir óánægju með skotframlög hans. Endaði svo með sprengju þegar minn maður yfirgaf völlinn eftir síðasta leik með tárin í augunum, hundfúll með lífið og tilveruna. Þetta var nú allt saman rætt og ég vona að þetta hafi nú ekki djúpstæð áhrif á hann til verri vegar. Þetta gerist stundum með hann þegar keppnisskapið og sú tilfinning þegar honum finnst að gengið sé á hans hlut blandast saman, bannvæn blanda.
Við höfðum dregið Loga Snæ með á þetta en sáum að hann myndi nú aldrei endast þetta óskertur á geði. Ég tók því að mér að skutla honum upp í Mosó til afa og ömmu. Var það bara til að toppa þetta að akkúrat þegar það fór fram gekk á með stórhríð á höfðuborgarsvæðinu og var því rúnturinn úr Garðabæ upp í Mosó, með viðkomu í Breiðholtinu, og í Garðabæinn aftur aðeins lengri ég hafði ráðgert eða góður klukkutími. Frábært. Þegar við komum þarna í upphafi móts var sól og þegar við fórum heim eftir mótið var sól. En ekki þegar ég þurfti að komast hratt og örugglega Garðabær-Mosó-Garðabær, þá var stórhríð!
Eftir svona dag finnst mér knattspyrna alveg yndislega einföld íþrótt og það sem meira er, einföld í framkvæmd hvort sem þú ert 32 ára eða 8 ára. Handbolti er svo sem ágætur líka en ekki samt alveg sama snilldin. En það þýðir ekkert að hengja haus yfir þessu, það verður að reyna að peppa drenginn upp í það sem hann vill gera og gerir vel.
Það sem drepur þig ekki styrkir þig bara.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Þetta gat ég lesið :)))))
Ég kann mun betur við handboltapistla en fótboltapistla
Það er vonandi að þetta hafi ekki slæm áhrif og að hann hætti, bara herða upp hugan og trúa á sjálfan sig. :-)
Skrifa ummæli