laugardagur, apríl 07, 2007

Saga af sparkvellinum

8 ára gutti nálgast sparkvöllinn í Grundarfirði. Á honum eru nokkrir unglingsdrengir að sparka bolta. Guttinn tekur sér stöðu við völlinn og horfir á strákana. Svolítið á eftir kemur maður á besta aldri ásamt 3ja ára syni sínum. Maðurinn er í íþróttabuxum, fótboltasokkum og gervigrasskóm, ásamt því að vera með fótbolta. Hann sér að sparkvöllurinn er upptekinn og tekur því við að kasta fótboltanum í körfu með litla drenginn hjá sér, á vellinum við hliðina á sparkvellinum. Eitthvað vekur þetta furðu unglingsdrengjanna sem eru á sparkvellinum og þeir snúa sér að þeim 8 ára sem er að horfa á þá og spyrja hann hvort hann viti hvað karl þetta er. "Já, þetta er pabbi minn." Unglingarnir halda áfram og spyrja hvort hann geti mögulega eitthvað í fótbolta. "Já, hann er að spila í Utandeildinni" svarar hann aftur. Svarar í fullri alvöru.

Held að unglingsdrengirnir hafi ekki þótt þetta merkilegur pappír. En mér er alveg sama, þetta er í lagi á meðan Ísak Máni er ekki orðinn unglingur, þangað til hefur hann vonandi fulla trú á getu minni á þessum vettvangi. Þegar börnin hafa trú á manni þá hlýtur allt að vera hægt.

Engin ummæli: