sunnudagur, október 28, 2007

Hoppað, skoppað og hverfið verður ekki hið sama

Enn ein pabbahelgin að baki. Konan fór í sveitasæluna en við strákarnir héngum bara heima í menguninni. Aldrei þessu vant þá var ekkert íþróttamót þessa helgina hjá Ísaki Mána en þó var talsverð dagskrá samt.

Laugardagurinn fór að stórum hluta í að hjálpa Tomma að drösla búslóðinni hans úr Blöndubakkanum út í flutningabíl sem hefur rúntinn Reykjavík-Grundarfjörður. Kappinn að halda vestur á bóginn og það er hálffúlt að horfa á eftir karlinum úr hverfinu en maður skilur hann nú svo sem á vissan hátt. Sveitin heillar og sömuleiðis einbýlishús með bílskúr og garði...

Í dag fórum við með bekknum hans Ísaks í „óvissuferð“. Stefnan var sett á íþróttahús í Hafnarfirði, hjá íþróttafélaginu Björk nánar tiltekið. Þar hoppuðu krakkarnir og skoppuðu í einhverju fimleikaæfingasal í 90 mínútur. Eitthvað var þarna af systkinum bekkjarfélaganna sem fengu að fljóta með og vitaskuld var Logi Snær á svæðinu. Hann fór nú frekar rólega af stað en þegar sviðsskrekkurinn var farinn var hann alveg að fíla þetta. Ísaki Mána fannst þetta líka alveg frábært og ég verð að samþykkja það, þetta var bara nokkuð sniðugt en ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að leigja svona sal. Eftir hoppið og skoppið var haldið á Pizza Hut og nokkrum sneiðum sporðrennt. Allir sáttir.



Engin ummæli: