laugardagur, október 13, 2007

Teppi

Eru teppi að koma aftur sterk inn? Man þegar maður var lítill og allir voru með teppi í stofunni og jafnvel inn í svefnherbergjunum. Kom síðan ekki upp einhver æsingur um að teppi væru nánast handverk djöfulsins, þau mögnuðu upp flest öll ofnæmi og í þeim leyndust heilu lífríkin af skaðlegum örverum sem menn væru að anda að sér. Út með helv... teppið og allir fengu sér parket eða flísar.

Hluti af mér saknar teppisins. Ég myndi sennilega seint fá mér teppi inn í svefnherbergið en það var viss stemming með þetta í stofunni. Mjúkt að labba á þessu og hefðbundin þrif voru einfaldlega bara að ryksuga, ekkert skúringarvesen. Man reyndar að maður fékk nett brunasár í æsku þegar hitinn í innanhúsboltanum varð svo mikill að iðkendurnir renndu sér í skriðtæklingarnar á teppinu.

Reyndar yrðu afleiðingar „slysa“ í stofunni meiri og verri ef um teppi væri að ræða. Bara núna fyrir helgi þurfi frumburðurinn að kasta upp og komst hvorki lönd né strönd og morgunmatur þann dagsins endaði á stofugólfinu, þ.e. parketinu. Skúringarmoppan dregin fram, svalahurðin opnuð í smátíma og málið dautt. Sami atburður með teppi í sögunni hefði líklega ekki fengið eins snöggan endi.

Nei, líklega væri ó-það-er-svo-mjúkt-að labba-á-þessu tilfinningin með tilheyrandi unaðshrolli líklega of dýru verði keyptur. Kannski verður teppi í betri stofunni hjá mér þegar ég kaupi mér stærra hús, ég er hvort sem er ekkert mikið að sulla í rauðvíni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ertu orðinn snar vankaður... Ég mana þig til að teppaleggja ALLT... Þá meina ég allt, klósettið og eldhúsið líka