mánudagur, júlí 28, 2008

Á góðri stund 2008

Smelltum okkur vestur í Grundarfjörðinn um helgina á hina árlegu bæjarhátíð. Sem ég er farinn að hallast að sé eitt best geymda leyndarmálið í þessum bransa. Hvergi auglýst en alltaf örugglega rúmlega 3000 manns á svæðinu og þeir sem koma í fyrsta sinn virðast ekki gera sér grein fyrir hversu viðamikið þetta er. Bara gaman að því. Sem fyrr var bongóblíða allan tímann, smá hressileg hafgola á laugardeginum en sólin yfirgaf aldrei svæðið.

Annars var þetta að mestu leyti hefðbundið. Sveinn Brynjar, vinur hans Ísaks Mána, kom með okkur eins og í fyrra og því var maður með þrjá gríslinga en það gekk nú allt saman. Tókst reyndar að láta plata mig í einhvern fótboltaleik á sunnudeginum. Svo sem ekki neinn bara einhvern fótboltaleik heldur var þetta auglýstur sem landsleikur á milli Íslands og Póllands. 7-mannabolti sem var reyndar bara 6-manna því fleiri knattspyrnuspilandi Pólverja var ekki hægt að fá í Grundarfirði. Ég hafði nú ekki komið undirbúinn undir þetta og spilað því í marki á stuttbuxum, stuttermabol og berhentur og komst að þeirri niðurstöðu að legghlífar, markmannshanskar og annar hlífðarbúnaður er stórlega ofmetinn. Ísland vann eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Þá er hægt að fara hlakka til næsta árs. Reyndar verður það tvöfaldur pakki ef maður tekur það því þá verslunarmannahelgi verður unglingalandsmót UMFÍ í Grundarfirði. Miðað við að sundlaugin var bara rétt að valda 3000 manns þá veit ég ekki hvernig þeir ætla að tækla 10.000 manns. En það verður alla vega fótboltavöllur nánast í bakgarðinum á Smiðjustíg 9 og Ísak Máni er alveg að kaupa þá hugmynd.

Engin ummæli: