mánudagur, ágúst 04, 2008

Innipúki

Ekki var farið neitt um þessa verslunarmannahelgi og eiginlega var bara ekki neitt gert sem merkilegt gæti talist. Sem er stundum bara fínt. Það er mjög fínt að chilla svona í höfðuborginni um þessa helgi, allt svo rólegt og fáir á ferli.

Fórum í nýrri sundlaugina í Mosó, nokkuð sem Ísak Máni er búinn að bíða eftir í talsverðan tíma en nú var tækifærið nýtt til fullnustu. Allt voða nýmóðins en ég bjóst eitthvað við þessu stærra í sniðum en alveg vel brúkanlegt. Þá er maður búinn að prófa þá laug.

Skelltum okkur í bíó og sáum Wall-e. Veit ekki hvað skal segja. Ekki það að fjöldi orða í kvikmyndum sé einhver mælikvarði á gæði þá held ég að þeir sem talsettu þessa ræmu hafi þurft að smella inn fjórum orðum fyrir hlé. Eitthvað fór orðaflaumurinn að aukast eftir hlé en ég var ekkert frá mér numinn. Allt í lagi en sem sagt ekkert spes en kannski er það bara ég.

Fórum svo að leika okkur á ÍR vellinum í dag, gervigrasið opið og ekki hræða í bænum þannig að það var hægt að leika sér þar óáreittur í góða stund. Að öðru leyti var þetta bara þægilegt, farið á rúntinn og fengið sér ís. Ekki slæmt.

Engin ummæli: