Við Ísak Máni lögðum land undir fót ef svo er hægt að segja og skruppum til Egilsstaða um helgina. Úrslitariðill 5. flokks ÍR, Þórs, FH og Hattar í Íslandsmótinu var spilaður þar. Flugum á laugardagsmorgni, spilaðir tveir leikir þann daginn og einn leikur á sunnudegi áður en flogið var aftur heim. Ég hafði aldrei komið til Egilsstaða áður og get ekki sagt að ég hafi séð mikið af bænum. Þetta er væntanlega eitthvað svipað og þegar stóru fótboltahetjurnar úti í heimi sem hafa komið til margra landa en sjá eiginlega ekkert nema hótelherbergi og fótboltavelli. Við gistum í Fellabæ, Fellaskóla nánar tiltekið og vorum með Fellavöll á sama blettinum. Einu skiptin sem við fórum inn í bæinn var þegar okkur var skutlað í sund og svo þegar við keyptum okkur ís í Bónus.
Þrír úrslitariðlar í gangi og efstu liðin komust í undanúrslit, ásamt því liði með bestan árangur af liðunum þremur í öðru sæti. Þór í fyrsta leik en norðanmenn eru sterkir í þessum flokki. Það dugði þeim ekki því ÍR sigraði 2:1 með mikilli baráttu og hjálp lukkudísanna. FH voru næstir en svo skemmtilega vill til að þjálfari þeirra, Árni Freyr, er einn af betri mönnum meistaraflokks ÍR. FH hafði 2:1 sigur og efsta sætið að renna mönnum úr greipum. Sigur Hafnfirðinganna var þó sanngjarn ef menn eiga að vera alveg heiðarlegir. Það var því ekkert annað en sigur á móti heimamönnum í Hetti sem kom til greina ef menn ætluðu sér annað sætið og smá líkur á sæti í undanúrslitum. Öruggur 5:0 sigur hafðist þar og Ísak Máni tók sig til og setti tvö mörk, með mínútu millibili. Fyrstu mörkin hjá honum í sumar og gaman hjá honum að klára 5. flokks ferillinn og þar með hinn eiginlega 7-manna pakka á að skora tvö mörk í lokaleiknum. Ekki nóg með það heldur var honum hent inná síðustu mínúturnar í framlínuna, sem hefur ekki gerst síðan ég veit ekki hvenær. Ég sagði síðasti leikurinn því það fór svo að öll liðin í öðru sæti í öllum riðlunum þremur fengu sex stig og þar sem ekki er notast við markatölu þurftu forvígismenn KSÍ einfaldlega að draga hvort það væri ÍR, Valur eða Haukar sem fengu síðasta sætið í undanúrslitum. Það var gert í dag og það voru Valsarar sem duttu í lukkupottinn.
Í heild skemmtileg ferð og heimamenn fá mikinn plús fyrir að hafa hugsað vel um gestina sína og vildu allt fyrir okkur gera. Boltanum að ljúka þetta sumarið en þá koma víst ný verkefni í staðinn.
mánudagur, ágúst 29, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli