sunnudagur, ágúst 21, 2011

Menningarhelgin

Hér er búið að vera hið þokkalegasta prógramm um helgina. Sigga tók þátt í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoninu og tókst áætlunarverkið sem var að vera undir 60 mínútumarkinu, 56:42 min svona til að hafa þetta nákvæmt. Ég tók Loga Snæ og Daða Stein með mér niður í bæ og við sáum kellu taka síðustu metrana. Það er eins og mig minni að ég hafi einhvern tímann farið 10 km í einhverju skólahlaupi í Grundarfirði hérna í den og sama minning er líka sú að það hafi verið drulluerfitt. Að öðru leyti hef ég ekki komið nálægt svona skipulögðum viðburðum en einhverntímann var ég nú að hugsa um að taka þátt í þessu Reykjavíkurmaraþoni en ekki hefur það enn komist lengra en að vera bara hugmynd. Röltum aðeins í gegnum bæinn að hlaupi loknu, enda ekki hægt að fá bílastæði þarna alveg við markið. Flott veður og fín stemming.

Ísak Máni gat ekki komið með því hann var bæði á laugardaginn og sunnudaginn í úrvalsbúðum KKÍ, seinni helgin þetta sumarið en þetta er annað árið í röð sem hann fékk boð um að taka þátt í þessu. Styttist í að körfuboltatímabilið hefjist og menn ætla sér mikla hluti, það er vonandi að það verði gleði í vetur hvað það varðar. Annars fékk hann þau góðu tíðindi að hann komst í B-liðs hópinn fyrir úrslitakeppninna hjá 5. flokk í fótboltanum, nokkuð sem ég talaði um hérna fyrir nokkrum pistlum að væri alls ekki víst. Strákurinn var mjög sáttur en þessi úrslit verða um næsta helgi. Á Egilsstöðum...

Ég fór svo með Loga Snæ og Ísak Mána um kvöldið niður í bæ, kíktum á einhverja tónleika og tókum svo þessa margumtöluðu tendrun Hörpunnar eða hvað sem þetta var kallað og svo líka flugeldasýninguna. Skriðum heim um rúmlega miðnætti, alveg ágætlega sáttir með þetta allt saman.

Ekki fór sunnudagsmorgunninn í mikla Joe Boxer náttbuxnanánd því Logi Snær var að keppa á Bónusmóti Fylkis í Árbænum, mæting þar 08:40. Mamman tók að sér að vera mætt með drenginn á réttum tíma, við Daði Steinn létum okkur nægja að mæta rétt fyrir fyrsta leik sem var 09:30. Ísak Máni var á fyrrnefndum úrvalsbúðum. Það gekk hálferfiðlega fyrir veðurguðina að ákveða hvernig þær ætluðu að hafa þetta og eftir að hafa verið að mestu leyti í sól tók þeir rigninguna á þetta þannig að við Daði Steinn beiluðum á síðasta leiknum. Úrslitin frekar niðurdrepandi enda voru þeir að spila við ári eldri drengi en sem fyrr var Logi Snær ekkert að velta því mikið fyrir sér.

Ég er ekki enn búinn að endurnýja áskriftina á Stöð2 Sport2, þ.e. enska boltanum. Get ekki sagt að ég sé hreinlega mikið að taka eftir því.

Engin ummæli: