Að elta hverfisklúbbinn minn í sumar hefur verið takmörkuð stemming en ég hef nú samt látið mig hafa það. Aðra sögu er hinsvegar að segja af meistaraflokki Grundarfjarðar í 3ju deildinni. Fjölskyldan skellti sér í bíltúr út á Álftanes á laugardaginn, til að sjá uppáhaldssveitaliðið spila fótbolta. Logi Snær fór í heimsókn til Óðins, gamla leikskólafélagans, sem flutti þarna út eftir fyrir þó nokkru. Restin af genginu horfði á Grundarfjörð sigra Álftnesinga 0:2 og tryggja sér þar með sæti í úrslitakeppninni í 3ju deildinni þrátt fyrir að ein umferð sé eftir. Tommi frændi fastur á sjúkrabílavaktinni í sveitinni og bruddi sprengitöflur á meðan ég sendi honum sms um gang leiksins. Ég tók að mér að vera með myndavélina á kantinum, bara gaman að því. Enn verður maður að hrósa þessu strákum sem halda utan um þetta, Tomma og co. Fyrsta árið eftir endurvakningu klúbbsins var ekkert sérstakur svona stigalega séð en þetta hefur smollið flott núna á ári tvö. Heyrst hefur að líklegastir mótherjar Grundarfjarðar á fyrsta stigi úrslitakeppninnar sé Magni frá Grenivík. Fjandinn sjálfur, hvað er maður lengi að keyra á Grenivík? Þetta er alvöru stemming.
mánudagur, ágúst 15, 2011
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli