þriðjudagur, júlí 11, 2006

Forza Azzurri


Ítalía heimsmeistarar í fótbolta, bara snilldin ein. Þetta hefur tekið smá tíma að síast inn. Maður hefur verið talinn hálffurðulegur í gegnum tíðina vegna þess að maður hefur löngum stutt Ítalíu á helstu stórmótum í knattspyrnu. Leiðinlegur varnarbolti með dýfingameisturum í framlínunni heyrði maður alltaf en svei mér ef það var ekki bara til þess fallið að maður varð ákveðnari í að halda með liðinu. Man enn hvað manni sveið þegar Ítalir héldu keppnina árið 1990 og duttu út í vítaspyrnukeppni á móti Argentínu í undanúrslitum og gerðu þar með drauminn um úrslitaleikinn Ítalía - V-Þýskaland að engu. Roberto Donadoni og Aldo Serena klúðruðu vítunum og ég sá nýverið nýlegt viðtal við Serena þar sem hann fjallaði um þennan atburð og það var greinilegt að þetta var eitthvað sem hann losnar aldrei við. Þessar vítaspyrnukeppnir hafa farið illa með ferilinn hjá mörgum manninum

Í næstu keppni komust Ítalir alla leið í úrslitaleikinn á móti Brasilíu. Ítalirnir voru reyndar frekar rólegir í riðlakeppninni þar og það var ekki fyrr en gulldrengurinn sjálfur Roberto Baggio tók sig til og ruddi nánast einn og óstuddur öllum mótherjum sem fyrir þeim varð úr vegi. Úrslitaleikurinn var reyndar sá leiðinlegasti í manna minnum, hvorugt liðið skoraði í 120 mínútur og mig minnir að fyrst skot Ítala á mark Brasilíumanna hafi komið á 65. mínútu eða eitthvað álíka slæmt. Vítaspyrnukeppni í fyrsta sinn í úrslitaleik á HM staðreynd og þar töpuðu Ítalir. Franco Baresi og Daniele Massaro misnotuðu fyrir Ítalíu áður en títtnefndur gulldrengur steig upp og þurfti að skora til að halda þeim inn í keppninni en tók sig til og dúndraði himinhátt yfir markið.

Í keppninni 1998 duttu Ítalía út fyrir Frökkum í 8-liða úrslitum eftir vítaspyrnukeppni, man ég var að vinna hjá GÁP og við vorum með sjónvarp inná lager og þar sá ég leikmann Roma, Di Biagio, negla boltanum í þverslánna sem var nóg til að Ítalir fóru heim. 2002 fóru hinir bláu út í 16 liða úrslitum fyrir heimamönnum í S-Kóreu, sigurmarkið kom í framlengingu en ekki vítaspyrnukeppni sem verður að teljast til tíðinda.

Í millitíðinni höfðu þeir lent í úrslitaleik á EM 2000 á móti Frökkum. Marco Delvecchio leikmaður Roma setti fyrsta landsliðsmarkið sitt í þessum úrslitaleik og lengi leit út fyrir að það myndi duga en Sylvian Wiltord náði að jafna á síðustu andartökum leiksins og David Trézéguet kláraði svo leikinn í framlenginu með gullmarki. Það var skelfileg stund og þetta gullmark var fáránleg regla.

Ég sé á þessu að það var alveg kominn tími á þennan sigur hjá Ítalíu, fyrsta vítaspyrnukeppnin sem þeir klára og þetta var tíminn til að klára eina svoleiðis. Að ég tali nú ekki um að örgustu Ítalíuhatarar þurftu að kyngja öllum fyrri yfirlýsingum því Ítalarnir spiluðu flottan fótbolta, skiptu yfir í vörn og sókn eftir þörfum, með blússandi sóknarbakverði og fyrst og fremst gargandi liðsheild, ekki sundurleitur hópur prímadonna.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu bíddu, á ekkert að minnast á 2 Inter leikmennina sem báru þungann af sóknarleik Ítala á þessu móti??? Fabio Grosso og Marco Materrazzi??? Matarrassi átti úrslitaleikinn með húð og hári... gaf vítasp. skoraði, fiskaði Zidda útaf og skoraði svo í vítasp keppninni og geri aðrir betur. Svo var það Grosso sem kláraði síðustu spyrnuna með stæl.

FORZA INTER

Davíð Hansson Wíum sagði...

Bíddu, eigum við ekki að láta Grosso fara a.m.k. einu sinni í Intertreyju áður en við köllum hann leikmann Inter?