miðvikudagur, september 27, 2006

Clifford Lee Burton (10. febrúar 1962 – 27. september 1986)

Í dag eru 20 ár síðan Cliff Burton, einn mesti bassaleikari rokksögunnar, lést.

Hann fæddist þann 10. febrúar 1962 í Eden spítalanum í San Francisco. Foreldrar hans voru Jan og Ray Burton og áttu þau tvö börn fyrir, Scott og Connie.

Cliff byrjaði að spila á píanó þegar hann var sex ára gamall. Þegar hann var fjórtán ára byrjaði hann að spila á bassa og hóf svo að læra á hljóðfærið í september 1978 og stundaði það nám til janúar 1980. Samkvæmt foreldrum Cliffs þá eyddi hann fjórum til sex tímum á dag að æfa sig, jafnvel eftir að hann gekk til liðs við Metallica. Hann útskrifaðist frá Castro Valley High School árið 1980 og gekk þá til liðs við hljómsveitan Trauma eftir að hafa verið í hljómsveitinni Easy Street. Easy Street spilaði aðallega lög eftir aðrar hljómsveitir og kom að mestu leyti fram á litlum börum. Einn besti vinur Cliffs á þessum árum var Jim Martin sem síðar spilaði á gítar með Faith No More.

Það var síðan árið 1982 sem Lars Ulrich og James Hetfield, meðlimir í Metallica sáu til Cliffs og hrifust mjög af. Þá þegar voru komnir brestir í samstarf þeirra við þáverandi bassaleikara Metallica, Ron McGovney. Fannst Lars og James hann ekki vera að standa sig og í raun gaf James það einu sinni út að það væri í raun hann sem hefði kennt Ron allt sem hann kunni á bassa. Cliff vildi fyrst ekki ganga til liðs við Metallica og það var ekki fyrr en Lars og James samþykktu að færa höfuðstöðvar bandsins frá L.A. til San Francisco að Cliff sannfærðist. Þann 5. mars 1983 spilaði Cliff í fyrsta sinn með Metallica á stað sem hét The Stone í San Francisco.



Það er ekkert vafamál að með Cliff innanborðs urðu Metallica mun heilsteyptara band. Hann varð fljótlega þekktur fyrir mikil og þétt bassasóló ásamt kröftugri framkomu á sviði. Cliff var bassaleikari Metallica á fyrstu þremur plötum bandsins, Kill ´em all (1983), Ride the lightning (1984) og Master of puppets (1986).



Það var einmitt þegar þeir voru á tónleikaferðalagi að kynna Master of puppets plötuna að Cliff lést.

Það var snemma á laugardagsmorgni þann 27. september 1986 nálægt bænum Ljungby í Svíþjóð að rútan sem þeir voru í fór útaf sökum ísingar á veginum og hvolfdi ofan í skurði. Cliff, sem var aftur í koju hægra megin í rútunni, kastaðist út um gluggann áður en rútan lenti ofan á honum. Enginn annar lést í þessu slysi, Lars fótbrotnaði en aðrir sluppu með minni meiðsli. Þeir sem voru í rútunni minnast þess að hafa séð fæturnar á Cliff standa út undan rútinni strax eftir slysið, sjón sem þeir gleyma ekki. Til að bæta gráu ofan á svart féll rútan ofan á líkið af Cliff þegar kapall sem var notaður til að lyfta rútunni slitnaði.

Eins og oft þegar svona harmleikir gerast þá hugsa menn aftur til atburðanna fyrir slysið og spyrja sig af hverju hlutirnir hafi farið eins og þeir fóru. Þegar hljómsveitarmeðlimirnir voru á þessu ferðalagi drógu þeir Cliff og Kirk spil um hver fengi þessa koju sem Cliff var í þegar hann lést. Cliff dró spaðaás og fékk kojuna. James svaf vanalega í koju næst þeirri sem Cliff var í en hann átti yfirleitt í vandræðum með að sofa í þeim. Þessa nótt gat hann ekki sofið vegna þess að honum fannst of mikill gegnumtrekkur þar og hafði áhyggjur af því að verða lasinn.

Farið var með lík Cliffs til Bandaríkjanna og var það brennt, 7. október 1986 í heimabæ hans, Castro Valley. Ösku hans var dreift yfir einn eftirlætisstað Cliffs, Maxwell Ranch. Við útförina var lagið Orion af plötunni Master of Puppets spila. Eftir það spilaði Metallica aldrei Orion í heild sinni á tónleikum fyrr en 3. júní 2006 þrátt fyrir að hlutar af laginu hafi verið oft notaðir.



Við bassanum hjá Metallica tók Jason Newsted, aðeins rúmum mánuði eftir fráfall Cliffs, en hann var þá meðlimur í Flotsam And Jetsam. Aðalástæðan fyrir þessum hraða var að hinir þrír eftirlifandi meðlimir Metallica ákváðu að fresta ekki tónleikaferð sinni í Japan þrátt fyrir brottfall Cliffs. Jason vildi meina að hann hafi aldrei verið að fullu samþykktur sem fullgildur meðlimur Metallica, þrátt fyrir að vera hafa verið í hljómsveitinni í 15 ár. Jason hætti í janúar 2001 og Robert Trujillo tók við í febrúar 2003.

Réttast að enda þetta á texta eftir Cliff sem kemur fram í laginu To live is to die sem kom út á fyrstu stóru plötu Metallica eftir að Cliff féll frá, ...And justice for all (1988).

"When a man lies he murders some part of the world.
These are the pale deaths which men miscall their lives.
All this i cannot bear to witness any longer.
Cannot the kingdom of salvation take me home."



Heimildir:
Kerrang! Legends. Issue 3, 2003
http://www.nunnie.com/cliff-burton.html
http://www.metallicaworld.co.uk/Cliff%20Burton.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Cliff_Burton
http://web.telia.com/~u90102963/tribute.htm

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gæsahúð

Nafnlaus sagði...

Þarna var greinilega sagnfræðingurinn í þær á fullu....

Villi sagði...

Bíddu, bíddu, hvað er eiginlega í gangi? Gítardraumar í síðustu færslu og nú ævisaga einhvers síðhærðs gaurs sem ábyggilega hefur legið í pillum og rusli hálfa æfina.

Maður fær nú bara áhyggjur af sálarlífinu hjá þér.

Getur ekki Sigga sett þig í einhverjar framkvæmdir svo þú sért ekki að liggja á netinu og þýða svona dellu? Bara spyr.

Nafnlaus sagði...

Jú Villi það væri nú hægt að láta hann setja saman skápa á baðinu svo þetta verði einhvern tímann búið. Held samt að hann sé samt að höndla betur svona blogg framkvæmdir.

Davíð Hansson Wíum sagði...

Ég hafði nú reiknað með meiru af hámenntuðum manni heldur en að hann færi að dæma menn af útlitinu einu saman. Þessi drengur var snillingur og hananú. Er eitthvað samasem merki milli þess að vera með sítt hár og spila á hljóðfæri og pilluáts?

Hefði kannski verið eðlilegt ef hann hefði fundist á klósetti með sprautunál í hendinni?

Hlustið á plötu Metallica frá 1986, Master of puppets og verðið ykkur úti um myndbandið Cliff ´em all frá 1987 áður en þið dæmið...

Nafnlaus sagði...

Ja hérna jæja - bara fjör í liðinu :-)