Ég fæ stundum hugdettur. Misgóðar eins og gerist og gengur og misvel gengur að hrinda þeim í framkvæmd. Jafnvel spurning hvort maður vill eitthvað framkvæma allar hugmyndir sem maður fær, en það er önnur saga.
Hef alltaf séð svolítið eftir því að hafa aldrei lært á hljóðfæri. Ég hafði nú engan sérstakan áhuga held ég svona snemma í bernskunni og þegar ég kom á unglingsárin var áhuginn aldrei nógu mikill til að ég gerði eitthvað í málunum. Það er helst svona núna á síðari árum að ég hef séð þetta í hillingum, að læra á eitthvað hljóðfæri. Aðgerðarleysið hefur nú sennilega stafað meðal annars af því að ég er ekki að sjá mann á mínum aldri stauta mig í gegnum Litlu andarungarnir á eitthvað hljóðfæri. Ég er samt kominn að þeirri niðurstöðu að ef ég ætla að læra á eitthvað úr þessu þá verður gítar fyrir valinu, alltaf öfundað þá sem geta glamrað nokkur grip á gítarinn. Á tímabili þegar ég var ekki sjá þennan draum rætast þá var ég kominn á það að kaupa mér einhvern alvöru rafmagnsgítar, Gibson eða eitthvað annað flott merki og hafa bara sem stofuskraut og læra aldrei á hann. Hann yrði að sjálfsögðu fyrir örvhenta og því ekki hætta á að margir vitleysingar færu að fikta í honum.
Svo kom önnur, að ég tel, snilldarhugmynd upp í kollinn á mér ekki alls fyrir löngu varðandi þetta málefni. Ég tek stöðuna á Ísaki Mána og athuga hvort honum langi ekki að læra á gítar. Hann byrjaði aðeins að læra á hljóðfæri síðasta vetur, er að fikta bæði á blokkflautu og píanó og kemur til með að halda því áfram í vetur. Ég sá þetta fyrir mér að ef hann, á einhverjum tímapunkti, myndi vilja skipta yfir í gítarinn þá myndi ég láta slag standa og læra með honum. Sá þetta svo vel fyrir mér að ég ímyndaði mér að ef við sætum hvor á móti öðrum (annar rétthentur, hinn örvhentur) þá væri þetta bara eins og að horfa í spegill og kannski þægilegt að læra hvor af öðrum þannig. Bara hugdetta.
Eitthvað sem gerist í framtíðinni? Tíminn verður að leiða það í ljós.
mánudagur, september 25, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þetta er efni í stórhljómsveit
Skrifa ummæli