fimmtudagur, september 07, 2006

Innkaupaleiðangurinn

Drullaðist loksins og fór að versla í ríkinu, sjá pistil neðar á síðunni. Eftir að hafa spáð svolítið í því hvað ég ætti að gera þá tók ég þá ákvörðun um að versla mér eitthvað eðalvín sem fer vel í hillu, aðallega vegna þess að ég á yfirdrifið af bjór. Þannig að ég fór í ríkið (kalla menn þetta ekki enn ríkið?), nældi mér í innkaupakörfu og hélt af stað. Ég hlýt að hafa litið furðulega út röltandi þarna um með gemsann í annarri en með honum sló ég inn jafnóðum upphæð á flöskunum sem fóru í körfuna enda ákveðin upphæð sem þurfti að stemma. Ef það hefur ekki komið nógu skýrt fram þá hef ég ekki hundsvit á borðvínum, ekki nokkra. Ég var sem sagt þarna inni og valdi mér flöskur aðallega eftir tveimur atriðum: Hvernig flaskan leit út, þ.e. var hún eitthvað fyrir augað og hvað kostaði hún, valdi bara flöskur sem kostuðu meira en minna og taldi mér trú um að þetta snérist um gæði en ekki magn. Mér var nokk sama hvort stóð á hillumiðanum að vínið væri dökkrautt eða með ávaxtaeftirbragði. Alla vega, núna lítur vínskápurinn minn talsvert betur út en hann gerði. Fyrir utan þá staðreynd að ég á ekkert sem ég get kallað eiginlegan vínskáp. Hvað um það, þessi eina einmanna rauðvínsflaska sem ég er búinn að eiga í einhver 5-6 ár er búin að eignast níu nýja vini sem innihalda rauðvín og hvítvín frá ýmsum heimshornum og einni rándýrri kampavínsflösku. Djö... er ég klikkaður...

Annars er nú eitt sem ég skil ekki varðandi vínbúðir. Hver fer og kaupir sér t.d. 3 dósir af bjór? Ég hélt að kippan væri svona lágmarkið ef maður á annað borð væri kominn á staðinn til að versla sér bjór. Á meðan þetta er ekki leyft í matvörubúðum þá kostar þetta mann alltaf sérrúnt í þessar vínbúðir. Hlýtur að vera eitthvað langt leitt lið sem getur ekki átt bjór heima í ísskápnum án þess að drekka hann á stundinni. En ertu þá ekki með vandamál? Skiptir mig engu svo sem, það er annarra manna vandamál, ég er bara í rauðvíni og hvítvíni og einstaka kampavíni.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held að þetta sé bara ávísun á að ég bjóði mér í mat til ykkar næsta sumar, hehe

Nafnlaus sagði...

.... og hvenær á svo að drekka þetta allt saman Davíð??? Kanski í brúðkaupinu?? híhíhí :)

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekkert í þér að hafa bara keypt bjór fyrir allan peninginn... Hefðir nú getað boðið mér í leik og bjór alla laugardaga út veturinn.

Nafnlaus sagði...

Já takk ég þigg rauðvínsdreytill með lambinu sem þið bjóðið mér í þegar ég kem næst suður :)))

Nafnlaus sagði...

Veit bara að ég á ekkert eðalvín svo það þíðir ekkert fyrir ykkur að tala við mig og ef ég bíð ykkur í mat er ekkert víst að þið fáið vín með matnum þar sem við erum ekki gift og þar af leiðandi ekki orðin eitt!!!!