Mér skilst að loksins sé búið að opna Taco Bell hérna á Íslandi, í Hafnarfirði nánar tiltekið. Kynntist þessari menningu úti í USA sumarið 1996 og þótti mér þetta algjör snilld. Ég var alveg eyðilagður að enginn skildi sjá sóma sinn í því að opna svona stað hérna heima. Því skil ég ekki alveg af hverju ég er ekki æstari í að mæta á svæðið loksins þegar staðurinn opnar, hann opnaði núna 28. desember og ég sit enn heima. Á vissan hátt er ég pínu smeykur við þetta, við erum að tala um rúmlega 10 ára spenning sem gæti litið út fyrir að vera fáránlega heimskulegur ef ég verð svo fyrir vonbrigðum með staðinn. Það væri skelfilegt ef mér fyndist þetta svo hreinlega vont, en gæti reynt að réttlæta það með því að stemmingin hjá mér í dag er eflaust önnur en ´96.
Ég vil nú líka skrifa þetta áhugaleysi á annan reikning. Málið er að Ég-á-Íslandi er ekki sami og Ég-í-útlöndum, a.m.k. ekki hvað matarmenningu varðar. Ég vann í húsi við hliðina á McDonalds í einhver 3-4 ár og ég held að allan þann tíma hafi ég farið 3-4 sinnum þangað að éta í hádeginu. Hins vegar er ekki óalgengt að á ferðum mínum til Bretlandseyja þá fari ég einu sinni á dag á McDonalds. Það hlýtur eitthvað að tengjast stemmingunni, eða eitthvað.
Ég man líka að á tímabili hélt ég því fram að Burger King væri málið en McDonalds væri rusl. Segja þeir ekki að eldsteikt sé ekta? Var því alveg sáttur þegar sú keðja mætti á svæðið þótt það hafi ekki verið sami spenningurinn og með Taco Bell. En hvernig fór sú saga? Þann 18. febrúar 2004 opnaði fyrsti Burger King staðurinn á Íslandi og núna eru 3 staðir starfræktir á landinu en enn á ég eftir að fara á einhvern þeirra. Maður er náttúrulega þokkalega furðulegur.
Nú er bara spurning hvað maður gerir með Tacoið. Situr bara heima og hugsar til ársins ´96 eða peppar sig upp í það að mæta á svæðið? Ætli maður lifi ekki djarft og næli sér í burrito við tækifæri.
sunnudagur, janúar 07, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli