laugardagur, júní 02, 2007

10:1

Þá er bikarævintýrinu lokið, það fékk heldur betur hressilegan skell upp í Mosfellsbæ í gær. Töpuðum sem sagt 10:1 í leik þar sem var við ofurefli að etja eins og tölurnar bera með sér. Lentum í smá áfalli á leikdegi þegar kom í ljós að tveir af fjórum miðjumönnum liðsins, þar af fyrirliðinn, voru frá vegna meiðsla og veikinda. Menn voru samt ágætlega stemmdir og staðráðnir í að stríða liði Aftureldingar eins og hægt var. Byrjuðum á móti vindi og rigningu og framan af var leikplanið að virka, þeir náðu ekki að setja mark fyrr en á 20. mínútu og voru greinilega aðeins farnir að pirrast þegar að því kom. Menn misstu eitthvað aðeins móðinn við þetta og staðan í hálfleik var 4:0. Byrjuðum svo á að fá á okkur vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks sem þeir nýta og staðan orðin 5:0. Þarna var hætt að rigna og vind farinn að lægja. Þeir setja svo tvo til viðbótar áður en við náum að setja mark úr vítaspyrnu og staðan orðin 7:1, ég ætla samt ekki að segja að með því marki hafi við verið komnir aftur inn í leikinn. Þeir svara aftur um hæl, 8:1 og þannig var staðan þangað til 5 mínútur voru eftir. Á 85. mínutu skora þeir og komast í 9:1 og fá síðan aðra vítaspyrnu á 88. mínútu þannig að það leit út fyrir að þeir kæmust í tveggja stafa tölu, hugsun sem manni var meinilla við. Karlinn gerði sér lítið fyrir og varði vítið og var farinn að gæla við þá hugsun að við myndum halda þeim "bara" í 9 mörkum en á 93. mínútu settu þeir tíunda markið, við tókum miðju og leikurinn var flautaður af.



Eins og það ætti varla að skipta nokkru einasta máli hvort þú tapar leik með 8 eða 9 marka mun þá sveið þetta síðasta ógeðslega mikið, tala nú ekki um að hafa verið nánast með síðustu spyrnu leiksins. En svona er þetta bara, það er talsverður munur á því að æfa einu sinni í viku og spila í utandeildinni sem er ekki einu sinni byrjuð og að æfa 5-6 sinnum í viku og vera í toppbaráttunni í 2. deild. Þokkalega sáttur við minn hlut í leiknum, gerði engin stór mistök að ég held en ef þú færð á þig 10 mörk þá spáir maður óneitanlega í því hvar hefði mátt gera betur, maður er aldrei sáttur við að fá á sig mörk og hvað þá 10 kvikindi í einum og sama leiknum.

Við komumst á þann stað í keppninni sem við ætluðum okkur, fengum alvöru leik við alvöru lið og það þýðir ekkert að vera að hengja haus yfir því.

Það er alltaf næsta ár.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

og hættir þú þá núna að blogga um fótbolta....

Nafnlaus sagði...

Nei Jóhanna mín, nú er utandeildin að byrja