fimmtudagur, júní 14, 2007

K.R. hatrið er nánast algjört

KR tapaði fyrir toppliði FH í fótboltanum í kvöld. Þrátt fyrir að Valur sé í harðri toppbaráttu við FH þá gat ég ekki annað en glaðst nett yfir þessari útreið vesturbæjarliðsins, 6 leikir í deildinni og aðeins eitt stig komið í hús. Gleymi aldrei árinu 1999 þegar KR varð meistarar í fyrsta sinn í 31 ár á 100 ára afmæli félagsins, þetta sama ár féll Valur í fyrsta sinn í sögunni úr efstu deild. Drullan og viðbjóðurinn sem maður varð að þola frá stuðningsmönnum KR var þvílíkur að slíkur hroki hefur varla sést á byggðu bóli. Þetta er geymt en ekki gleymt og yrði ég fyrsti maðurinn til að þramma í gegnum vesturbæinn í fagurrauðri Valstreyju ef Valur yrði meistari í ár og KR færi niður, skammast mín ekkert fyrir það. Velti m.a. þeirri spurningu upp með sjálfum mér í hvaða hverfi á höfðuborgarsvæðinu ég gæti ómögulega búið í ljósi þess að drengirnir mínir yrðu að æfa fótbolta hjá viðkomandi hverfisklúbbi. Held ég geti nánast sætt mig við flest, veit reyndar ekki með Fram en KR gæti ég aldrei afborið.

Því miður held ég þó að þetta verði ekki raunin með niðurstöðu deildarinnar í sumar, FH-ingar líklega of sterkir fyrir önnur lið í deildinni og sennilega ná KR-ingar að girða sig í brók þegar á mót dregur. Sú staðreynd að vegna fjölgunar í deildinni á næsta tímabili fellur bara eitt lið niður, gæti líka bjargað KR. En ef ég þyrfti að velja milli meistaratitils til Vals eða fall handa KR þá myndi ég vitaskuld fá bikarinn á Hlíðarenda. Hatrið er bara nánast algjört, ekki algjört.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér Davíð, ég fylgist nú svo sem ekki mikið með fótboltanum hérna heima. En fylgist þó aðeins með tapleikjum KR - bara til að vera viss um að þeir tapi :-) En ég hef svo sem ekki hátt um þetta - veit ekki alveg hvernig Elli og Ívar tækju þessu. Ætli mér yrði ekki pakkað saman, gæti trúað því.

kveðja,
Gulla