Við höfum ekkert þurft að senda Ísak Mána á nein skipulögð námskeið í sumar. Einhvern tímann fór hann á eitthvað fótboltanámskeið hjá ÍR en þetta sumarið var ekkert sérstaklega bitastætt í boði eða sérstaklega mikil þörf hafi orðið á að „geyma“ hann á einhverju námskeiði hluta úr sumri. Það kom reyndar smá viðsnúningur á þetta núna í byrjun mánaðarins þegar hann tilkynnti okkur að hann vildi fara á körfuboltanámskeið ... hjá Val. Ég hafði reyndar verið með augun opin hvort hverfisklúbburinn okkar byði ekki upp á eitthvað svoleiðis í sumar en körfuboltadeildin þar á bæ lá einfaldlega í dvala hvað þetta varðaði. Handboltinn bauð upp á einhvern pakka en áhugi Ísaks liggur ekki þar.
Hann hafði rekið augun í einhverja auglýsingu á netinu þar sem Valur bauð upp á vikulangt námskeið í drippli og tengdum aðgerðum. Við foreldrarnir vorum aðeins á báðum áttum, þetta kom upp á föstudegi og námskeiðið átti að hefjast á mánudegi. Einnig vorum við feðgar að fara til Sauðárkróks á föstudeginum þar sem Ísak Máni var að keppa alla helgina, heim á sunnudagskvöld og þá mæting á Hlíðarenda á mánudagsmorguninn kl. 09:00, ef af yrði. Nú, þar sem drengurinn var ákveðinn í þessu og setti það ekkert fyrir sig að þekkja ekki kjaft þarna þá var lítið annað að gera en að boða komu hans í þetta. Við nánari grenslan kom í ljós að Breiðablik var með samskonar námskeið á sama tíma en ákveðið var að hnikra ekkert við upprunalegu plani og halda sig við Val.
Vikan var fljót að líða og allt gekk vel og drengurinn bara mjög sáttur. Hann verður vonandi ferskari fyrir vikið þegar körfuboltaæfingarnar hjá ÍR byrja í haust og vonandi ekki minna sáttur við það. Var nú reyndar nokkuð broslegt að flesta dagana endaði kennarinn á því að kalla alla þátttakendurnar í hring og kalla saman í kór: 1 - 2 - 3 - Valur. Ísak Máni sagði mér þetta eftir fyrsta daginn en lét fylgja með: „Pabbi, ég fór í hringinn eins og allir hinir en ég sagði bara ekki neitt.“
föstudagur, ágúst 14, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli