laugardagur, ágúst 01, 2009

Forngripir frá ýmsum tímum

Menn eru bara heima að skottast um þessa verslunarmannahelgi. Fjölskyldan tók röltið í dag upp í Árbæjarsafn sem getur varla talist meira en þægilegur göngutúr frá heimilinu. Enga síður held ég að þetta hafi verið einungis mín önnur heimsókn þangað, alla vega hin síðari ár. Fínt að dunda sér þarna í blíðunni. Drengirnir skemmtu sér vel og þóttu m.a. gaman að fá að leika sér með gamalt dót frá ýmsum tímum, einmitt í gamla ÍR húsinu sem stóð vestur í bæ þegar ég var að alast þar upp en var flutt upp í Árbæjarsafnið fyrir nokkrum árum. Eitt af því sem kíkt var á var ca. 20+ ára gömul Nintendo leikjatölva sem var vel nothæf og meira að segja hægt að prufa nokkra mismunandi leiki. Ég átti nú ekki svona tölvu á mínum yngri árum en man eftir því að eitthvað af félögunum í Grundarfirði áttu svona græju þannig að ég upplifði þarna afturhvarf til bernskunnar. Ítölsku píparabræðurnir voru vitaskuld þarna og Duck Hunt, ég man hvað manni þótti þetta geðveikt að geta notað byssu til að skjóta á skjáinn. Svo var einhver fótboltaleikur sem bar þess merki að vera ca. 20 ára gamall, a.m.k. var Ísak Máni ekki alveg að kaupa grafíkina í honum.

Mér var svo lítið á gömlu konurnar tvær sem voru greinilega að rifja upp sín bernskuár í básnum þar sem hægt var að leika sér með kindabein og útskornar dúkkur. Klóraði mér bara í hausnum og fannst þetta allt eitthvað svo magnað.

Engin ummæli: