sunnudagur, ágúst 07, 2011

2ja fótboltamótahelgin

Þá er helginni, sem við höfðum svona semi-andvarpað yfir, að ljúka. Semi-andvarpað aðallega vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því fyrir nokkru að eitthvað þyrftu menn að skipta liði. Logi Snær að keppa á Króksmótinu á Sauðárkróki en Ísak Máni á Olísmótinu á Selfossi. Fór það svo þannig að Sigga hélt á Krókinn, seinnipart föstudagsins með Loga Snæ, á meðan ég sá um Ísak Mána og Daða Stein. Gekk þetta ágætlega með Loga Snæ, úrslitin voru ekkert spes því aðeins einn sigur komst í hús á meðan rest tapaðist en Logi virðist ekki vera að velta sér upp úr því. Ekki að heyra annað en að hann hafi skemmt sér vel og mamman virðist hafa komið heil út úr þessu að mér sýnist, en þau voru að detta í hús. Engin bongóblíða þarna fyrir norðan en þurrt og það er nú oft fyrir öllu.

Olísmótið byrjaði hinsvegar á föstudeginum þannig að við Ísak Máni vorum mættir á Selfoss um hádegisbil. Spáin var ekkert sérstök fyrir þann daginn en árinu áður lentum við í einhverju því versta veðri sem ég hef upplifað á svona mótum og er búinn að fara á þau nokkur. Rifjum aðeins upp stemminguna í fyrra:



Þetta var ekki alveg svona slæmt í ár en við fengum samt ágætlega hressilega rigningu á köflum þarna á degi eitt. Úrslitin voru ekki alveg að detta í hús hjá Ísaki og félögum, töpuðu fyrstu tveimur áður en sigur hafðist í síðasta leik. Eftir þennan dag röðuðust liðin í riðla og hið eiginlega mót fór svo fram á laugardegi og sunnudegi. Ég brunaði í bæinn þarna á föstudagskvöldinu og sótti Daða Stein upp í Bröttuhlíð þar sem hann hafði verið í pössun að leikskóladegi loknum. Hann kom svo með mér á laugardeginum, enda miklu skárra veður og ekki skemmdi árangurinn inn á vellinum fyrir, þrír sigrar í þremur leikjum. Svo var bara brunað heim um kvöldið og svo aftur til höfuðborg hnakkanna á sunnudeginum.


Á lokadeginum var þvílík blíða og gleði í gangi. Báðir leikir dagsins unnust og því efsta sætið í riðli 2 hjá C-liðum og dolla í hús. Guttinn stóð sig bara vel, lék sem fyrr mest í vörninni en fékk einnig nokkur tækifæri á kantinum. Ákveðnum kafla lokið hjá honum en þetta var hans síðasta mót í þessum hefðbundu gistimótaseríum sem einkenna 8.-5. flokk og gaman því að ljúka þeim kafla með bikar. Í haust verður það 4. flokkur sem tekur við og þá dettum við í hefðbundinn 11-mannabolta og annars konar mót. Það verður öðruvísi en vonandi líka gaman, öðruvísi gaman.


Aftari röð:
Viktor Snær, Hákon Örn, Ísak Máni, Tristan og Berti þjálfari.
Fremri röð: Kjartan, Haraldur og Viktor Ingi.
Fremstur: Pálmi.

2 ummæli:

Villi sagði...

Til hamingju með þetta Ísak Máni.

Jóhanna líka gullhafi :))) sagði...

Glæsilegt Ísak Máni, nú getum ég og þú borið saman fótboltagullpeningana okkar og bikarana vúhú!!